Félagslegar aðstæður nýbúa

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:26:32 (1720)

[17:26]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á árunum 1985--1992 fjölgaði erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi úr 3.499 í 4.826, þ.e. um 1.327 manns. Þar við bætist að á sama tíma fjölgaði íslenskum ríkisborgurum sem fæddir eru erlendis um 3.067. Alls er því hér um að ræða 4.400 manna fjölgun. Þó telja verði að hluti af þessari tölu séu börn heimfluttra Íslendinga gefa þessar tölur til kynna að hópur nýbúa á Íslandi fer ört vaxandi og vex miklu hraðar nú en áður.
    Á árunum 1973--1985, þ.e. á 12 ára tímabili, voru sömu tölur, 2.028 og 648, þ.e. þar er um að ræða 2.676 manns á miklu lengra tímabili.
    Tölurnar gefa til kynna að fjölgunin er 223 á ári hin fyrrnefndu 12 ár, en á síðustu sjö árum er fjölgunin 771 á ári.
    Þeir sem setjast að hér eru frá mörgum þjóðlöndum með misjafna trú og siði og oft gerólík landslög. Rauði krossinn hefur annast félagslega fyrirgreiðslu fyrir flóttamenn og svo eru til ættjarðarfélög margra þessara nýbúa sem og eitt félag nýbúa á Íslandi. En samt gefur auga leið að félagsleg vandamál þessa fjölbreytta hóps sem nú auðgar íslenskt samfélag hljóta að vera mörg og stækkandi, ekki síst núna í vaxandi atvinnuleysi. Þá hlýtur óöryggið að vera enn þá meira.
    Menntmrh. hefur brugðist vel við og reynt að bæta úr ýmsum vanda varðandi íslenskumenntun nýbúa en heildarstefnu um réttindi, þjónustu og menntun sem þeir verða að njóta í íslensku samfélagi vantar algjörlega að mínu mati.
    Félmrh. hefur lagt margt og mikið af mörkum til að bæta félagslega aðstöðu nýbúa, ekki síður en menntmrh. hefur gert, en betur má ef duga skal. Það má t.d. spyrja, eiga nýbúar rétt á túlkaþjónustu á spítölum eða í samskiptum við hið opnbera, svo einhver dæmi séu nefnd um þjónustu sem bráðvantar. Því spyr ég á þskj. 245:
    ,,Hvernig hefur hæstv. félmrh. hugsað sér að bæta félagslegar aðstæður nýbúa hér á landi?``