Félagslegar aðstæður nýbúa

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:30:18 (1721)


[17:30]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Að undanförnu hef ég í sívaxandi mæli orðið vör við að málefni nýbúa hérlendis þarfnast sérstakar athugunar við. Eins og kunnugt er hefur stuðningur stjórnvalda við nýbúa fyrst og fremst verið fólginn í fræðslu, nánar tiltekið íslenskukennslu, og hefur menntmrn. annast þann þátt og þar hefur náðst verulegur árangur. Á vegum félmrn. hafa hins vegar verið gefin út tvö kynningarrit um félagsleg réttindi fyrir nýbúa, auk þess hefur félmrn. veitt fjárstyrk vegna námskeiða á vegum Rauða krossins fyrir nýbúa. Þá hafa mér nýlega borist tvö erindi um málefni nýbúa, annað lýtur að frekari útgáfu í þágu þeirra í tengslum við námskeið í nýbúafræðslu, hitt er beiðni um fjárstyrk til þess að unnt sé að starfrækja áfram upplýsinga- og menningarmiðstöð fyrir nýbúa sem starfrækt hefur verið á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.
    Ég tel þá starfsemi afar mikilvæga nýbúum og tel brýnt að hún geti haldið áfram og að henni verði tryggður starfsgrundvöllur og sá stuðningur sem til þarf til að hún geti haldið áfram.
    Þessi erindi eru nú til athugunar í félmrn. í samráði við menntmrn. og það er rétt að geta þess varðandi síðarnefnda málið að á vegum ráðuneytisins voru veittar 600 þús. kr. til upplýsinga- og menningarmiðstöðvarinnar úr 60 millj. kr. sjóðnum til atvinnuskapandi verkefna fyrir konur gegn mótframlagi úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

    Eins og kunnugt er skortir lagaákvæði sem kveða skýrt á um rétt nýbúa til félagslegrar þjónustu. Segja má að nýbúar eigi sama rétt til félagslegrar þjónustu sveitarfélaga og aðrir íbúar sveitarfélaganna. Hitt er að þarfir nýbúa í félagslegum efnum eru um margt aðrar og meiri en annars fólks. Þess vegna tel ég að það sé nauðsynlegt að skoða mál þeirra sérstaklega með það fyrir augum að tryggja betur rétt þeirra í lögum. Þetta á einkum við um ungmenni og börn nýbúa og vil ég í þeim efnum vekja sérstaklega athygli á niðurstöðu málþings sem haldið var á vegum samtakanna Barnaheill fyrir rúmu ári síðan. Erindi á þeirri ráðstefnu hafa birst í tímariti Barnaheilla og þar geta menn fræðst um þá erfiðleika sem börn nýbúa mæta gjarnan.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið mjög tímabært að málefni nýbúa séu tekin til umfjöllunar þannig að unnt sé að öðlast heildarsýn yfir mál þeirra svo ljóst sé hvar skórinn kreppir að.
    Ég tel einkum mikilvægt að skýra ábyrgð einstakra aðila, ráðuneyta svo og sveitarfélaga, þannig að ljóst verði hvert nýbúar geti leitað réttar síns í einstökum málum. Þess vegna tel ég afar brýnt að mörkuð verði heildarstefna í málefnum nýbúa með þátttöku þeirra ráðuneyta sem málið varðar auk Sambands ísl. sveitarfélaga, að ógleymdum þeim aðilum sem nú starfa að málefnum nýbúa, svo sem Rauða krossinum. Viðfangsefnið væri að gera tillögur um aðgerðir til úrbóta í málefnum nýbúa sem ég hef hér vikið að. Ég vil einkum að fjallað verði um félagslegar aðstæður flóttamanna í þessu sambandi. Reynslan sýnir að þeir þarfnast stuðnings í mun lengri tíma en nú er og fleiri aðilar þurfa að axla ábyrgð í þeim efnum. Rauði krossinn hefur þar lagt fram mikla og góða vinnu en úrræðaskortur hamlar því að það starf beri jafnríkan árangur og annars væri, t.d. í húsnæðis- og leikskólamálum.