Félagslegar aðstæður nýbúa

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:33:59 (1722)


[17:33]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef áður greint að nokkru frá því hvað unnið hefur verið í málefnum nýbúa á vegum menntmrn. Ég læt þess getið hér að menntmrn. hefur ráðið Ingibjörgu Hafstað sem verkefnisstjóra fyrir kennslu nýbúabarna í skólum og Ástu Kristjánsdóttur til þess að sinna fullorðinsfræðslu nýbúa fyrir ráðuneytið. Það eru haldnir fræðslufundir og námskeið fyrir kennara sem kenna nýbúum og það hefur verið óskað sérstaklega eftir samstarfi við samtök foreldra barna í grunnskólum, Heimili og skóla.
    Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það hefur ekki verið um að ræða neina heildarstefnu í málefnum útlendinga sem flytjast til landsins, en fjöldi þeirra hefur aukist mjög á undanförnum árum. Í menntmrn. hafa verið haldnir fundir með fulltrúum frá Útlendingaeftirlitinu og Hagstofu Íslands um stöðu nýbúa almennt, réttindi, skyldur og skráningu, sem virðist í sumum tilvikum vera ófullkomin. Að fenginni reynslu menntmrn. af málefnum nýbúa tel ég brýnt að mótuð verði heildarstefna í málefnum þeirra sem flytjast búferlum til landsins. Þess vegna hef ég lagt til við ríkisstjórnina að skipuð verði nefnd, t.d. með fulltrúum forsætis-, utanríkis-, félagsmála-, dómsmála- og menntamálaráðuneytis. Nefndin kynnir sér m.a. aðstöðu nýbúa hér á landi, svo og stefnu í útlendingamálum í nágrannalöndum og leggi til hvernig tekið skuli á þeim málum hér á landi.
    Þetta þótti mér rétt að kæmi hér fram þar sem með framangreindum aðgerðum er verið að bæta félagslega aðstöðu nýbúa.