Reglugerð um vistun barna í sveit

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:47:55 (1729)

[17:47]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að það var í mörg horn að líta þegar sá stóri og mikilvægi málaflokkur, barnavernd, var fluttur frá menntmrn. til félmrn. og ég hef þegar gert í fyrirspurnum grein fyrir sumum þeim málum sem þar hefur þurft að taka á og fengið greið svör hjá hæstv. félmrh.
    Ég vil taka það fram hérna í þessari umræðu að ég held að það sé nauðsynlegt að huga að því hvort ekki þarf að fara að dæmi Norðmanna vegna þess hve þessi málaflokkur er flókinn og mikilvægur og setja sérstakt fjármagn í það að koma barnaverndarmálum í betra horf heldur en nú er. Ég veit að það er ekki legið á liði sínu innan félmrn. en það er nokkuð þröngur stakkur sniðinn að vera að huga að faglegri ráðgjöf m.a. vegna vistunar barna í sveit og jafnframt að byggja upp meira og minna nýtt kerfi samkvæmt hinum nýju lögum.