Reglugerð um vistun barna í sveit

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:49:16 (1730)


[17:49]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Það er alveg greinilegt af svari hæstv. félmrh. hér áðan að þótt nýlega hafi verið sett lög um vernd barna og ungmenna og verið sé að vinna með reglugerðarsetningu í framhaldi af þeim lögum þá er enn mjög margt sem þarnast úrlausnar. Og þar á meðal er frekari reglugerðarsetning um það og e.t.v. lagasetning hvernig skuli farið með

málefni vistforeldra í sveitum. Það er staðreynd að þetta úrræði er mikið notað og samkvæmt skýrslu frá Hagsýslu ríkisins sem gefin var út í október 1993, þar sem m.a. er verið að ræða um málefni barna og unglinga þá segir með leyfi forseta: ,,Fagaðilar virðast vera sammála um að góð fósturúrræði séu oft betri en hefðbundin vistun og því þarf að byggja upp fósturúrræði á markvissan hátt. (Forseti hringir.) Enn fremur --- virðulegi forseti, ég er að ljúka máli mínu: ,,Minni áhersla á hefðbundnar stofnanalausnir og meiri áhersla á faglega uppbyggð fósturúrræði, fjölskylduheimili og göngudeildarmeðferð getur skapað meiri sveigjanleika meðferðarkerfisins og skilað meiri faglegum árangri og aukið hagkvæmni.`` Ég tel því að það sé mjög nauðsynlegt jafnvel að endurskoða þann kafla laganna um vernd barna og ungmenna sem þetta gæti átt heima í.