Barnaverndarráð

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:57:31 (1734)


[17:57]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Á sínum tíma var ítarlega um það rætt í nefndinni sem samdi frv. til laga um vernd barna og ungmenna hvort það hlutverk að fara með lokaúrskurðarvald í málum sem leidd eru til lykta á grundvelli laga um vernd barna og ungmenna ætti að vera hjá dómstólum eða hvort viðhalda ætti þeirri tilhögun sem sextíu ára reynsla og hefð er fyrir að barnaverndarráð fari með þetta hlutverk. Niðurstaða nefndarinnar var sú að leggja til hið síðara. Sá vandi sem við var að glíma í gildistíð laga frá 1966, um vernd barna og ungmenna, var sá að barnaverndarráð fór með mörg hlutverk, þar á meðal eftirlit með störfum barnaverndarnefnda, átti að veita þeim leiðbeiningar um þeirra störf og fór með lokaúrskurðarvald í einstaka barnaverndarmálum. Það er oftar en ekki um að ræða ákvarðanir samkvæmt 13. gr. laga, í svokölluð meiri háttar málum. Þessi hlutverk ráðsins þóttu fara afar illa saman og fara í bága við þær kröfur sem eðlilegt þótti að gera til að tryggja rétt og öryggi allra aðila en á síðari tímum hafa auknar kröfur verið gerðar á því sviði eins og aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds bera rækt vitni um.
    Með nýjum lögum um vernd barna og ungmenna var að fullu aðgreint lokaúrskurðarvald í barnaverndarmálum og önnur þau verkefni sem hinu opinbera er ætlað á þessu sviði. Þannig fer barnaverndarráð nú eingöngu með úrskurðarmál en félmrn. með önnur þau hlutverk sem ráðið hafði samkvæmt eldri lögum. Ætti því að vera tryggt það réttaröryggi sem þótti ábótavant í gildistíð eldri laga um vernd barna og ungmenna. Sá kostur sem þykir vera á núverandi lokameðferð barnaverndarmála er sá að barnaverndarráð er að meira eða minna leyti eins og sérdómstóll. Í ráðinu sitja nú héraðsdómari, barnalæknir og sálfræðingur. Hjá ráðinu starfa auk þess lögfræðingur og sálfræðingur. Þannig fá þau mál sem til úrskurðar eru vandaða og sérhæfða meðferð. Margir telja að dómstólar mundu ekki geta fjallað á vandaðri hátt um mál en ráðið nú gerir.
    Annað atriði sem miklu skiptir er sá tími sem meðferð barnaverndarmála tekur þegar ákvörðun liggur fyrir í barnaverndarnefnd. Þau börn sem málin varða eru gjarnan á stofnunum og bíða þess að framtíð þeirra sé ákveðin. Það er eitt af mikilvægustu atriðum þessa máls að börnin sem í hlut eiga fái skjóta úrlausn en lifi ekki áfram í óvissu um framtíð sína mánuðum saman. Miðað við aðstæður hjá íslenskum dómstólum þótti ekki tryggilegt að búa svo um hnútana að þeir færu með lokaúrskurðarvald í barnaverndarmálum. Ég held að hér sé komin ein meginástæðan fyrir þeirri tilhögun sem lögð var til í nefndinni sem samdi frv. til laga um vernd barna og ungmenna. Vert er að hafa í huga að fleiri atriði eru nú úrskurðarefni en var í eldri lögum. Áhrif þess eru þegar komin í ljós þegar barnaverndarráð hefur það sem af er þessu ári fengið 16 mál til umfjöllunar auk annarra minni háttar erinda sem ráðinu hafa borist en ekki hafa verið úrskurðarefni. Ekki síður tel ég vert að hafa í huga það atriði að ég tel að réttaröryggi barna sé ekki síður tryggt með núverandi málsmeðferð en vera mundi ef dómstólar færu með hlutverk barnaverndarráðs.
    Eftir að hafa farið yfir þau atriði sem er að finna í skýrslu Hagsýslu ríkisins sem vitnað var til hér af fyrirspyrjanda um barnaverndarráð og eftir að hafa kynnst þeim rökum öðrum sem ég hef heyrt um kosti þess að dómstólar fari fremur en barnaverndarráð með lokaúrskurðarvald í barnaverndarmálum mun ég ekki beita mér fyrir því að breyting verði á ákvæði 49. gr. sömu laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, um hlutverk barnaverndarráðs að fara með lokaúrskurðarvald í barnaverndarmálum.