Svæðalokanir

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 18:07:12 (1737)


[18:07]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :

    Herra forseti. Á árinu 1992 urðu skyndilokanir fleiri en þær höfðu nokkru sinni orðið. Lokanir voru flestar á togsvæðum togara fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Fyrri hluta þessa árs hélt þessi þróun áfram og um miðjan júlí voru skyndilokanir orðnar jafnmargar á öllu árinu 1992 eða 108.
    Þessar tíðu skyndilokanir ollu nokkrum erfiðleikum. Þær leiddu til mikillar óvissu um hvar mögulegt væri að stunda veiðar hverju sinni og var í raun nokkurt sannleikskorn í því sem togaramenn sögðu að þeir væru á sífelldum flótta undan skyndilokunum. Um miðjan maí fór LÍÚ þess á leit við ráðuneytið að haldinn yrði fundur ráðuneytisins, Fiskistofu, LÍÚ og Hafrannsóknastofnunar um svæðalokanir til verndar smáfiski. Í bréfi LÍÚ segir m.a.:
    ,,Markmið fundarins yrði að kanna undirtektir við þá hugmynd að í stað tíðra skyndilokana sem aðalaðferðar við að vernda smáfiskasvæði komi lokanir til lengri tíma.`` Í bréfinu kemur einnig fram að LÍÚ telur að skyndilokanir við ríkjandi aðstæður leiði til aukins kostnaðar við veiðar og virðast ekki ná nógu vel því markmiði að friða smáfisk.
    Í framhaldi af þessu bréfi var haldinn fundur í ráðuneytinu þar sem auk ofangreindra aðila mættu fulltrúar sjómanna. Niðurstaða þess fundar var að Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun var falið að gera tillögur um svæðalokanir til lengri tíma og við ákvörðun bannsvæða skyldi taka mið af þeim skyndilokunum sem gripið hefði verið til og annarri vitneskju um hvar smáfiskur héldi sig. Hugmyndir Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar voru síðan ræddar á fundum með fulltrúum LÍÚ og sjómanna og í framhaldi af þeim var gefin út reglugerð um friðunarsvæði við Ísland sem tók gildi 23. júlí sl. Með reglugerðinni voru veiðar bannaðar ótímabundið á 10 tilgreindum svæðum. Á einu þessara svæða voru veiðar eingöngu bannaðar með vörpu en á hinum 9 voru línuveiðar jafnframt bannaðar. Í síðustu viku var reglugerðinni breytt nokkuð og voru þá sett þrjú ný friðunarsvæði við Suðvesturland til friðunar smákarfa.
    Varðandi reglugerð þessa ber þó að hafa í huga að með henni voru jafnframt felldar úr gildi 11 reglugerðir sem kváðu á um togveiðibönn á 15 svæðum hér við land. Þessi bönn höfðu ýmist verið í gildi í mörg ár eða verið sett á þessu eða síðasta ári í framhaldi af skyndilokunum.
    Þá er rétt að fram komi að 23. júlí sl. voru einnig bannaðar togveiðar á svæðum á Halanum og svæði út af Horni. Svæði þessi hafa verið skoðuð nokkrum sinnum síðan og hefur það leitt til þess að þeim hefur verið breytt nokkuð. Þegar þessar reglugerðir voru gefnar út var ekki fyrirhugað að hér væri um föst friðunarsvæði að ræða heldur svæði sem yrðu skoðuð reglulega og opnuð eða breytt ef ástæða væri til. Hefur þessum svæðum verið breytt frá því að reglugerðirnar voru gefnar út eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda.
    Með þeirri skipan mála sem hér er um rætt var komið á ákveðnum föstum friðunarsvæðum þar sem veiðar yrðu bannaðar ótímabundið. Var það gert til friðunar smáfiski, einkum þorski en einnig ýsu og karfa. Voru svæðin ákveðin í samræmi við bestu vitneskju um hvar smáfiskur héldi sig í því skyni að vernda hann. Jafnframt var gengið út frá því að með þessu mætti komast hjá síendurteknum skyndilokunum á ákveðnum svæðum sem e.t.v. hefðu vafasamt gildi. Reynslan síðari hluta þessa árs hefur sýnt að dregið hefur úr skyndilokunum fyrir togveiðum. Hins vegar hefur aukin áhersla verið lögð á að fylgjast með öðrum veiðarfærum og hefur skyndilokunum fjölgað t.d. gagnvart dragnótaveiðum og rækjuveiðum. Ekki eru að svo stöddu uppi frekari fyrirætlanir um að breyta reglugerðinni. Ekki hefur verið ákveðið hve lengi þessi togveiðibönn eiga að gilda. Enda þótt gert hafi verið ráð fyrir því að svæðin yrðu óbreytt um nokkurt skeið gæti komið til þess að þau yrðu skoðuð undir eftirliti og breytt eða felld niður ef ástæða væri talin til.