Friðunaraðgerðir á karfa

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 18:25:12 (1743)


[18:25]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessum málum báðum sem hér hafa verið rædd og ég tel rétt að vekja athygli þingmanna á því að hér er einmitt verið að ræða um það hvort ekki þurfi að hafa meira samráð og fara eftir ábendingum sjómanna. Sérstaklega í þessu síðara máli um karfastofninn hefur það einmitt komið fram að það var meira eftir ábendingum sjómanna sem farið var að skoða þetta sérstaka mál, karfastofninn og friðun hans eða eftirlit með ofveiði á honum. Ég vil geta þess í þessu sambandi að fyrir rúmu ári var ég á fundi á Ísafirði þar sem verið var að fjalla um leyfilegan heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár og þar fannst mér mjög sérkennilegt að af hálfu Hafrannsóknastofnunar kom það fram að það væri allt í lagi að auka um helming veiði á karfa. Þegar spurt var hvort nægar rannsóknir lægju þar að baki þá kom í ljós að svo var ekki. En samt var það lagt til að það mundi vera í lagi að auka veiðina um helming. Þetta fannst mér mjög sérkennilegt.