Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 14:13:48 (1751)


[14:13]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vandlætingartóninn --- hafi hann verið í minni ræðu og hann var þar auðvitað --- átti ekki að skilja með þeim hætti sem hv. 3. þm. Vestf. skildi hann. Ég held að það hafi allir skilið málið með sama hætti og hann lýsti hér áðan að það væri verið að gera fyrirtækjunum kleift að standa sig betur í þeim erfiðleikum sem þarna voru. Mín vandlæting stafar af því að þegar var verið að kynna þetta fyrir þjóðinni þá töluðu menn ekki um að það yrði um varanlega hækkun á útsvari eða jafngildi þess að ræða heldur var talað um aðra tekjustofna og þeir voru sérstaklega nefndir. Útsvarið var aldri nefnt sem aðaluppspretta peninga í staðinn fyrir aðstöðugjaldið. Ég tel að það hafi verið blekkingar sem hafi í raunveruleikanum farið fram og eftirleikurinn sýni okkur það.
    Síðan kom hann að öðru. Hann taldi að ég héldi því fram að það væri visst vandamál að fyrirtæki græddu peninga. Ég held og ég get bara endurtekið það sem ég sagði að það sé ekki rétti tíminn til að lækka skatta á þeim fyrirtækjum í landinu eða þeim atvinnuerkstri sem stendur vel og er að græða peninga þegar allir aðrir þurfa að leggja á sig

hækkaða skatta eins og fólkið í landinu og þá eigum við að velja þann tíma til þess að hækka skatta á þeim sem eru að græða og hafa það ágætt og þurfa raunverulega ekki á neinni hjálp að halda. En þá velur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sér tímann til þess að lækka skatta. Ég held að allir aðrir en hv. 3. þm. Vestf. hljóti að skilja það að það var ekki rétti tíminn til að láta fara fram skattalækkanir.