Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 14:15:56 (1752)


[14:15]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að öllum hafi verið ljóst þegar á sínum tíma var tekin sú ákvörðun að aflétta skattbyrði af fyrirtækjum í landinu með því m.a. að fella niður aðstöðugjaldið, sem ég hygg að flestir hafi verið sammála um að var mikill óþurftarskattur, að sú ákvörðun var í sjálfu sér varanleg því að það hefði nú verið einkennilegt upplit á því að fella niður skatta á síðasta ári og leggja þá svo á alveg sérstaklega á þessu ári aftur. Er hv. þm. þeirrar skoðunar að aðstaða rekstrarskilyrða atvinnulífsins hafi batnað svo mjög í landinu að það sé ástæða til þess að hverfa frá þeirri ákvörðun sem var tekin í fyrra og leggja á nýja skatta á atvinnulífið í landinu?
    Varðandi það sem hv. þm. sagði að hér væri sérstaklega verið að létta sköttum af þeim fyrirtækjum sem best stæðu og mest mættu sín, þá er það auðvitað alrangt. Það er að vísu rétt að tekjuskattsprósenta fyrirtækjanna var lækkuð nokkuð til samræmis við það sem gerist og gengur í öllum samkeppnislöndum okkar, færa með öðrum orðum samkeppnisskilyrði þessara fyrirtækja sem eru að berjast um á alþjóðlegum markaði m.a. til álíka forms og gerist og gengur í samkeppnislöndum okkar. En þá er líka rétt að hafa það í huga og halda því til haga að um leið voru gerðar ráðstafanir sem fólu það í sér að þessi skattstofn var breikkaður og undanþágunum var fækkað þannig að það er mat t.d. Vinnuveitendasambands Íslands að skattbyrðin af þessum sökum hafi afar lítið breyst hjá íslenskum atvinnufyrirtækjum. Hér er einkanlega verið að gera þessar tæknilegu breytingar. Ég held þess vegna að allt hans tal og allt hans vandlætingarhjal um að það sé sérstaklega verið að rétta þeim fyrirtækjum hjálparhönd sem síst þurfa á slíku að halda sé alrangt. En ég er almennt þeirrar skoðunar að það sé jákvætt í sjálfu sér að það séu til fyrirtæki í okkar landi sem græði og geti þess vegna lagt af mörkunum til uppbyggingar atvinnulífsins, t.d. í þágu útflutningsatvinnuveganna. Væri það ekki í anda þeirrar nýsköpunar í stefnumörkun Alþb. sem kölluð hefur verið útflutningsstefna einmitt að búa vel að hag þessara fyrirtækja sem eru að sækja á til nýrrar sóknar víða um heiminn?