Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 14:18:22 (1753)


[14:18]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Um það að öllum hafi verið ljóst að þetta væri varanlegt að fella niður aðstöðugjaldið þá er það að segja að það var öllum ljóst. En hins vegar var það líka öllum ljóst sem fylgdust með umræðunni í fyrra að það var ekki verið að tala um að breyta aðstöðugjaldinu í útsvar. Það var verið að tala um að leita annarra leiða til þess að fjármagna þetta heldur en áður hafði verið gert og svigrúmið sem var gefið til þess var þessi tími. Og ég held að það hafi enginn orðað það í hv. Alþingi, og ég sat held ég flesta fundi, að það stæði til að þetta sem hæstv. fjmrh. barðist við að réttlæta fyrir þjóðinni að væri ekki skattahækkun og er núna í munni sumra sem tala um þessi mál ekki heldur hækkun á útsvari, nú eru menn að leggja það á sig að rökstyðja það fyrir fólkinu í landinu tvö ár í röð að hafi ekki orðið hækkanir á sköttum þó skattarnir hafi hækkað í fyrra og síðan hafi útsvarið hækkað í staðinn á þessu ári. Ég get ekkert annað en endurtekið það ef hv. þm. hefur ekki skilið það nógu vel sem ég hef verið að segja að það er ekki rétti tíminn til þess að lækka skatta á fyrirtækjum sem eru í bullandi gróða þegar allir aðrir þjóðfélagsþegnar þurfa að taka á sig auknar byrðar, þá eigi þeir sem eiga tekjuafgang og mundu þurfa að borga tekjuskatt til ríkisins að sleppa. Ég held að það séu fáir í þjóðfélaginu sem taka undir það. En hins vegar vil ég segja það um nýja atvinnustarfsemi að þar þurfum við auðvitað að taka á með fyrirtækjum og ef þessi fyrirtæki, sem menn eru að tala um að séu að græða peninga í dag, eru að fara af stað með nýja atvinnustarfsemi þá er bara allt annað á ferðinni. Það er hugsanlegt að taka á þeim málum sérstaklega.