Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 14:49:31 (1756)


[14:49]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Mig langar aðeins til þess að leggja hér orð í belg um þetta frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þó að ég hafi náttúrlega tækifæri til þess að fjalla vonandi nokkuð ítarlega um það í félmn. þingsins, þá vil ég nú ekki láta hjá líða að leggja svolítið til málanna hér.
    Fyrir það fyrsta vil ég auðvitað þakka fyrir að þetta skuli nú vera fram komið, en ég held þó að það sé ekki seinna vænna að fara að sjá þetta vegna þess að sveitarfélögin þurfa auðvitað að fara að ákveða sínar álagningarprósentur og ákveða það hvernig þau ætla að haga sínum tekjum á næsta ári. Ef ég lít bara til Reykjavíkur, þá veit ég það að á fyrri fundinum í desember, sem er yfirleitt alltaf fyrstu vikuna í desember, er þessi ákvörðun tekin um álagningarhlutfall útsvars og fasteignagjalda á næsta ári. Ég held að ef sú hefð á að standast eða það fyrirkomulag á málunum eigi að standast þá verði þingið að hafa hraðar hendur en hins vegar ( SvG: Það er búið að samþykkja þetta í borgarráði.) --- það er búið að samþykkja þetta í borgarráði, þó það sé ekki búið að samþykkja lögin hér. Það eru fróðlegar upplýsingar sem heyrast utan úr sal. En hins vegar vil ég að það komi líka fram að ég held að félmn. þurfi að fjalla nokkur ítarlega um þetta og hún geti ekki afgreitt þetta mjög fljótt frá sér, því hér er auðvitað ýmislegt sem þarf skoðunar við, eins og kom fram í máli þeirra sem hér hafa talað.
    Í fyrsta lagi langar mig aðeins til að gera að umtalsefni 6. gr. frv. þar sem lögð er til sú breyting að útsvar sveitarfélaga verði að hámarki 9,2% í stað 7,5% nú. Þarna er sem sagt verið að leggja til hækkun á útsvari sveitarfélaga um 1,7%, hámarksútsvari. Menn hafa verið að gera það að umtalsefni hér að í frv. sé hvergi á því tekið hvort ríkisstjórnin ætli þá á móti að leggja til lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins um þau 1,5% sem bætt var á í fyrra. Tekjuskatturinn var hækkaður um 1,5% í fyrra til að mæta þessari niðurfellingu á aðstöðugjaldinu og auðvitað er ekkert hægt að ganga frá þessu máli hér án þess að vita nákvæmlega hvernig ríkisstjórnin ætlar að haga skattlagninu og tekjuskatti á næsta ári. En ég vil að það komi líka fram að það dugar ekki út af fyrir sig að lækka bara tekjuskattinn um þetta 1,5% sem bætt var á á þessu ári vegna þess að 1,5% í tekjuskatti gefur líklega 3 milljarða kr., vegna þess að þar virkar inn persónuafslátturinn, en þetta 1,7% í útsvarinu sem á að gefa heimild til þess að taka gefur 3,8 milljarða kr. Þarna eru því 800 millj. kr. sem eftir standa jafnvel þó að ríkið mundi taka burtu þetta 1,5% í tekjuskattinum sem bætt var á á þessu ári. Þannig að sú niðurfelling ein dugir ekki vegna þess að þá erum við að tala um, engu að síður, 800 millj. kr. aukna skattbyrði á einstaklinga í landinu. Þessu þurfum við að fá svör við og þetta þarf að skýrast áður en hægt er að taka á þessu máli í

þinginu. Mér finnst skjóta svolítið skökku við að það skuli ekki vera hægt að taka á því og gefa skýr svör um það hvort ríkisvaldið er tilbúið til að láta þetta ganga til baka og þá með hvaða hætti, á sama tíma og það treystir sér til þess hér að gangast inn á það að lækkaður verði fasteignaskatturinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, vegna þess að það er lögð til lækkun á þessum sérstaka skatti úr 1,5% af skattstofni í 1,25%. Þar treystir ríkivaldið sér til að ákveða að það muni leggja til þessa lækkun --- það kemur auðvitað inn í þetta frv. hér, hitt er partur af öðru frv. --- en það treystir sér ekki til að gefa einhverjar yfirlýsingar um það þó ekki væri annað en í grg. með frv. hvernig það hyggst standa að tekjuskattinum. Þetta eru hlutir sem mér finnst að þyrfti að skýra áður en hægt er að ganga frá þessu máli. Hins vegar, af því að við höfum stundum bara skammtímaminni í pólitík en ekki langtímaminni, þá hættir okkur til að gleyma því að í sjálfu sér var á síðasta ári lögð til og samþykkt verulega aukin skattlagning á einstaklingana í landinu. Skattbyrðin var flutt frá fyrirtækjunum á einstaklingana og það var enginn sem gekkst inn á það eða ræddi það, eins og hér hefur komið fram, að þarna yrði um varanlegan tilflutning að ræða. Þannig að ef við ætlum bara að gangast inn á það hér, rétt sí svona, að hækka útsvarsprósentuna sem þessu nemur þá erum við í rauninni að festa í sessi þennan tilflutning á skattbyrði, frá fyrirtækjunum til einstaklinganna. Mér finnst að menn þurfi aðeins að hugsa það mál.
    Ég vil í því sambandi að það komi fram, þó við í Kvennalistanum höfum ekki sett okkur upp á móti því að fellt yrði niður aðstöðugjaldið, þá hef ég samt vissar efasemdir um að það hafi verið rétt aðgerð, vegna þess að það sem við sjáum er að bæði að verið er að lækka tekjuskattsprósentuna á fyrirtækjunum og auk þess sjáum við líka að það gengur mjög erfiðlega að ná í tekjuskatt hjá fyrirtækjunum, vegna þess að fyrirtæki sem skila arði sjá sér alltaf ákveðna útleið. Þau fara í fjárfestingu eða fara út í það að fjárfesta með einum eða öðrum hætti til þess að nýta sér ákveðið skattahagræði, til þess að þurfa ekki að greiða tekjuskatt af þeim arði sem þau hafa. Það má auðvitað spyrja sig þess hvort fyrirtæki, svona sæmilega rekin fyrirtæki, ættu ekki að geta staðið undir einhvers konar veltuskatti eins og aðstöðugjaldið var.
    Það er auðvitað svo maður segi það, svolítið seint í rassinn gripið að vera að segja þetta hér og nú. En engu að síður var þessi aðgerð hugsuð til eins árs í senn og hún var í rauninni ákveðin mjög snarlega hér á þinginu og til bráðabirgða. Mér finnst því að þetta sé eitthvað sem við ættum að skoða með opnum huga núna þegar við förum að fjalla um það frv. sem hér liggur fyrir.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál en, eins og ég segi, vænti þess að við fáum þetta til góðrar skoðunar í félmn. þingsins og getum tekið þar nokkurn tíma í að gaumgæfa þetta mál.