Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 15:30:10 (1759)


[15:30]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Eðlilega hefur orðið töluverð umræða um það frv. sem hér er til umræðu enda mikilvægt að skoða vandlega hvaða tekjustofna sveitarfélögin fá í stað aðstöðugjaldsins. Það er alveg ljóst að það hefur verið lengi á döfinni að afnema aðstöðugjöldin og ég hygg að engir flokkar hér á Alþingi mæli því bót að halda aðstöðugjaldinu áfram. En ég hygg að ástæða þess að það hefur tekið þetta langan tíma sé að skiptar skoðanir hafa verið um það hvað ætti að koma í staðinn fyrir aðstöðugjaldið sem tekjustofnar sveitarfélaganna. Ýmsar nefndir hafa verið skipaðar til að vinna að þessu máli og sitt hefur hverjum sýnst og ég hygg að flestir þeir tekjustofnar sem ríkisvaldið og sveitarfélögin hafa yfir að ráða hafi komið með einum eða öðrum hætti til umræðu, bæði bifreiðagjald sem hér var nefnt, umhverfisgjald, skattlagningin á atvinnureksturinn væri eingöngu hjá ríkisvaldinu en sveitarfélögin hefðu tekjur af einstaklingum, að minnka hlut ríkisins í staðgreiðslunni í staðinn, að hækka tryggingagjald á atvinnureksturinn o.s.frv.
    En sú niðurstaða sem hér er fengin hefur verið gerð í fullu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og rædd á þeirra fjármálavettvangi og hún hefur einnig verið gerð í samráði við atvinnulífið og sú niðurstaða sem að lokum fékkst í þessu máli var samdóma niðurstaða þeirra aðila sem að þessu máli komu.
    Mig undrar það ekki að nokkuð hafi verið rædd álagning skatta á atvinnuhúsnæði og það sem hér er lagt upp með að það skuli vera mismunandi álagningarprósenta eftir því hvort um er að ræða verslunar- og skrifstofuhúsnæði eða annað atvinnuhúsnæði. Um þetta var töluvert rætt í þeirri nefnd sem skilaði þeirri niðurstöðu sem hér er til umræðu og þar voru skiptar skoðanir um þetta mál. Niðurstaðan var sú að ákvæði varðandi verslunar- og skrifstofuhúsnæði yrði einungis til bráðabirgða í eitt ár og tíminn notaður af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga og félmrn. til þess að skoða með hvaða hætti þetta yrði nánar útfært. Einnig kom vissulega til tals, sem mér finnst að mætti skoða í nefnd ef það væri til þess að ná breiðari samstöðu um málið, að hafa eina prósentu í fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði en ekki skipta því upp með þeim hætti sem hér er lagt til. En um þetta eru greinilega skiptar skoðanir hér við þessa umræðu þannig að væntanlega mun nefndin sem fær málið til meðferðar taka málið til ítarlegrar skoðunar en meginsjónarmiðið að hafa þetta með þessum hætti af hálfu nefndarinnar var að það hefðu verið lækkaðir skattar verulega á atvinnurekstrinum við niðurfellingu aðstöðugjaldsins og þess vegna væri ekki óeðlilegt þó þessi sérstaki skattur á verslunar- og skristofuhúsnæði, sem að vísu hefur verið lækkaður í þessari tillögu frá því sem hann var áður, yrði ekki felldur niður alveg um leið heldur gilti hann til bráðabirgða í eitt ár.
    Það hefur nokkuð verið rætt um að það sé verið að flytja skatt af atvinnurekstrinum yfir á einstaklinga. Ég benti á það í mínu máli í upphafi þessarar umræðu að þetta var

liður í kjarasamningum að þetta yrði gert með þeim hætti að fella niður skatta af atvinnurekstrinum og var það þá gert í ljósi erfiðrar stöðu atvinnulífsins og að við blasti fram undan mikið atvinnuleysi sem aðilar vinnumarkaðarins, sumir hverjir, spáðu að gæti stefnt í allt að 20 eða 25%.
    Ég vil taka það skýrt fram af því að það hefur ítrekað komið fram í máli þeirra sem hér hafa talað að verið sé með þessari breytingu, sem við erum að ræða hér, að flytja 3 eða 4 milljarða sem sumir hafa nefnt frá atvinnurekstrinum yfir á einstaklinga. Það er ekki um það ræða að verið sé að leggja auknar byrðar á einstaklingana frá því sem er á þessu ári. Þegar þessi bráðabirgðaákvörðun var tekin var lagt á 1,5% í tekjuskatti á einstaklinga vegna aðstöðugjaldsins. Með upptöku þess að útsvar hækkar þá fellur niður þetta 1,5% í tekjuskatti vegna þessa máls. Þannig að hér er fyrst og fremst verið að færa til tekjur við þessar breytingar milli ríkis og sveitarfélaga frá því sem er í ár en vegna þessara breytinga, vegna aðstöðugjaldsins, er ekki verið að íþyngja einstaklingum frá því sem er í ár við þessa breytingu.
    Einnig verða menn að hafa í huga að niðurfellingin á aðstöðugjaldi hlýtur að hafa skilað sér í lækkun á vöruverði til fólksins.
    Varðandi fleiri þætti sem um hefur verið spurt, a.m.k. af tveimur ræðumönnum, voru nefndar réttilega aðrar viðmiðanir sem aðstöðugjaldið hefur tekið mið af, kirkjugarðsgjald, iðnlánasjóðsgjald og fleira. Fjmrn. hefur verið með þessa þætti til skoðunar vegna þess að vissulega þarf að breyta þessum viðmiðunum þar sem tekið hefur verið mið af aðstöðugjaldi eins og í þessum þáttum sem ég nefndi og fjmrh. mun væntanlega flytja inn í þingið breytingar á þessum viðmiðunum.
    Varðandi niðurfellingu á landsútsvari sem hér var einnig rætt um þá er hugmyndin sú að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái í staðinn ákveðið framlag úr ríkissjóði sem nemi ákveðnu hlutfalli af álagningarstofni útsvars og mun það nema um 500 millj. kr. eða liðlega það, sem rennur þá í Jöfnunarsjóðinn í stað landsútsvars, en afgangurinn, um 117 millj., mun skila sér til sveitarfélaganna í formi hækkunar á útsvari og á fasteignasköttum.
    Ég hygg að ég hafi svarað flestum þeim spurningum sem til mín hefur verið beint en þær athugasemdir sem hér hafa komið fram við þessa umræðu verða væntanlega teknar til ítarlegrar skoðunar af þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar.