Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 15:42:20 (1762)


[15:42]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er orðið alveg ljóst hvað varðar 1,5%. Hér liggur fyrir yfirlýsing félmrh. um að það verði fellt niður og ég fagna þeirri yfirlýsingu. Þá skildi ég svar ráðherrans þannig hvað varðar sérstakan fasteignaskatt að það sé meining ríkisstjórnarinnar að hann verði lagður á með sama hætti og sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði en ekki að það sé verið að útvíkka álagninguna yfir á aðrar fasteignir sem hafa verið undanþegnar þar. Ég óska þá eftir því að hæstv. fjmrh. eða hæstv. félmrh. leiðrétti það ef það er rangur skilningur hjá mér.
    Hvað varðar þriðja atriðið í minni fyrirspurn áðan um landsútsvarið þá bendi ég á það að þó að Jöfnunarsjóðnum sé það bætt í beinu framlagi þá er ekki sjálfgefið að þeir peningar renni svo til þeirra sveitarfélaga sem áður og fram til þessa hafa fengið 1 / 4 af álögðu landsútsvari beint til sín, því það sem á að bæta í Jöfnunarsjóðinn eru 3 / 4 hlutar álagðs landsútsvars sem hefur runnið í Jöfnunarsjóð. Það er verið að bæta Jöfnunarsjóði svo hann standi jafnréttur eftir og er það skiljanlegt en ég sé ekki hvar á að bæta sveitarfélögunum þennan fjórðung af landsútsvari sem þau hafa fengið. Það eru umtalsverðir peningar fyrir þau sveitarfélög.