Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 15:45:59 (1765)


[15:45]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Frú forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með að hæstv. fjmrh. er gengin í salinn og ítreka spurningar sem ég hafði fram að færa. Með leyfi hæstv. forseta vil ég víkja að 6. gr., en þar stendur svo í skýringum með henni í þessu frv.:
    ,,Breytingin felur í sér að útsvar sveitarfélaga verður að hámarki 9,2% í stað 7,5% nú. Í þessu sambandi er rétt að fram komi að í nefnd þeirri sem vitnað er til hér að framan kom fram það álit fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga að tekjuskattur ríkisins verði að lækka sem þessu nemur þannig að álagningarhlutfall í staðgreiðslu í heild hækki ekki. Aðrir fulltrúar gerðu hins vegar ráð fyrir að hlutur ríkisins í staðgreiðslu ríkisins lækki en töldu ekki rétt að tilgreina nákvæma tölu í því sambandi.``
    Er verið að láta hæstv. félmrh. í reynd flytja frv. á Alþingi um hækkun á tekjuskattinum í landinu? Er það það sem verið er að gera? Auðvitað er það þessi eina greiðsla sem fólk er að greiða, það sem kemur við budduna hjá því.
    Ég vil minna á það að hæstv. fjmrh. er talinn einhver lærðasti Íslendingurinn miðað við ræðulengd sem hann hefur flutt um álagningu sérstaks skatts á verslunar- og skristofuhúsnæði. ( JGS: Heilar bækur til.) Miðað við að margir gerðu ráð fyrir að þetta yrði sérstakur kafli í eftirmælum þegar ævisagan kemur út þá vil ég fá það rökstutt hér og nú hvort skatturinn batni við það að sveitarfélag fær skattinn en ekki ríkið. Nú er þetta komið inn sem tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Í framtíðinni eiga það að verða sjálfstæðismennirnir í bæjarstjórn Reykjavíkur sem berjast fyrir því að skatturinn verði ekki afnuminn svo Reykjavíkurborg haldi sínum tekjum.
    En ég vakti athygli á því að í Dagblaðinu í dag kemur það fram að það er talið að íslensk verslun missi um 1,5 milljarða kr. vegna þess að Íslendingar meta það svo að vöruverð erlendis sé hagstæðara en hér á landi og þá er aðeins verið að tala um Írland og Bretland. Tapið sem við verðum fyrir á meginlandinu er ekki inni í þessari tölu og það er talið að íslenska ríkið tapi um 300 millj. í virðisaukaskattstekjum af þessari ástæðu.
    Ég hygg að hæstv. fjmrh. sé það ljóst að stundum geta það verið meiri hagsmunir sem séu látnir víkja fyrir minni hagsmunum og er það ekki að gerast hér? Eru það ekki stærri hagsmunir að tryggja það að verslunin íslenska geti keppt við verslun á erlendri grund þannig að menn eyði sem mestu hér innan lands og ríkið fái sem mest af virðisaukaskattinum en ekki að menn séu að ýta versluninni úr landi í vaxandi mæli? Er þessi hætta ekki raunveruleg? Og er ekki líka rétt að menn geri sér grein fyrir því að það er fólk sem vinnur í þessum verslunum og ef íslensk verslun dregst saman þá mun það auka atvinnuleysið í landinu. Ég held nefnilega að hæstv. fjmrh. þurfi að hugsa sig um tvisvar áður en hann kemst að þeirri niðurstöðu að hugmyndir um að gera þennan skatt varanlegan séu réttar. Það er verið að mismuna sannanlega atvinnurekstri í landinu með þessu tiltæki og það er ekkert sem bendir til þess að þjóðarheildin muni hagnast á þeirri mismunun, það er ekkert sem bendir til þess. Það er margt sem bendir til þess að íslenska ríkið muni tapa skatttekjum vegna þess að vöruverð er of hátt hér á landi.
    Ég vænti þess að umræða um skattamál geti verið á þeim grunni að menn átti sig á því sem hlýtur að vera langstærsta málið, að íslenskt samfélag þarf vissulega að fá tekjur en íslenskt samfélag hefur ekki efni á því að standa þannig að skattlagningu að það raski stöðu atvinnulífsins. Það er alveg á hreinu að mínu viti að eitt af því sem hefur verið landsbyggðinni erfiðast á undanförnum árum er hve stór hluti af versluninni hefur flust til Reykjavíkur. En ég er ekkert viss um að Reykjavík eftir 10 ár verði í betri stöðu heldur en Ísafjörður var fyrir 30 árum ef við horfum á þessa þróun. Takist ekki að skapa hliðstætt vöruverð í Reykjavík, sem er að keppa við aðrar verslunarborgir í Evrópu, þá lendir hún undir í samkeppninni. Svo einfalt er það mál. Og afleiðingin verður sú að skatttekjurnar sem við töpum varðandi virðisaukaskattinn verða það miklar að hæstv. fjmrh. verður fjær því markmiði en nokkurn tíma áður að ná jöfnuði í ríkisfjármálum.
    Ég geri mér grein fyrir því hvað hæstv. fjmrh. varðar í það minnsta að hann hefur hugsað þessi mál þó nokkuð mikið og mér kæmi það mjög á óvart ef hann getur rökstutt að það sé óeðlilegt að leggja þennan skatt á fyrir ríkið eins og gert var, en eðlilegt að leggja hann á fyrir sveitarfélögin.