Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 15:54:49 (1768)


[15:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að það megi flýta fyrir afgreiðslu þessa máls að ég segi hér nokkur orð. Ég skil það mætavel að það komi fram gagnrýni á nokkra þætti frv. í þessari umræðu, ekki síst í ljósi þess að enn hefur ekki verið lagt fram á þinginu frv. til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en það frv. mun skýra margt af því sem kemur fram hér í því frv. sem hér er til umræðu því að breytingarnar eru á milli tekjustofna ríkisins annars vegar og tekjustofna sveitarfélaganna hins vegar. Þess vegna hefði verið heppilegt að hafa bæði frumvörpin undir í einu.
    Það hefur nokkuð verið rætt hér um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og ég heyri að það er mikill söknuður í mönnum þegar þeir sjá fram á það að þetta verður líklega síðasta þingið sem menn geta rætt þann skatt sérstaklega (Gripið fram í.) og ég skal meira að segja gerast einn þeirra hér í þessum ræðustól sem kannski sakna þess að hafa ekki ræðufóður á næstu árum því að nú gerist það væntanlega, verði þetta frv. samþykkt og tekju- og eignarskattsfrv., að þess verður ekki kostur að ræða sérstaklega um þann skatt því að það gerist nú að ígildi þess skatts færist yfir í tekjustofnalögin. Þá geta menn auðvitað spurt: Hver er þá breytingin? Jú, ástæðan fyrir því að þetta er gert er sú að það er verið að lækka skatta af fyrirtækjum með þeim hætti að við teljum óhætt að festa þetta eignarskatts- eða fasteignagjaldsform í sessi og þótt í raun og veru sé um lækkun á verslunar- og skrifstofuhúsnæðisskattinum að ræða, þá er gert ráð fyrir því að annar eignarskattur geti hækkað lítillega á móti, þ.e. fasteignagjöld eða fasteignaskattar sem renna til sveitarfélaganna. Þetta helgast með öðrum orðum af því að þegar aðstöðugjaldið fellur út, þá myndast verulegt svigrúm hjá fyrirtækjunum og þau standa samt sem áður mun betur en áður í sínum rekstri því að aðstöðugjaldið, svo ég nefni tvær tölur til þess að sýna stærðarmuninn á þeim, þá var álagt aðstöðugjald um það bil 4 milljarðar en þegar við tölum um skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, þá erum við að tala um um það bil 500 millj. og það sjá allir að það er verulegur munur á þessum tveimur tölum.
    Ég vil taka það fram að ástæðan fyrir því að gripið var til þessa bragðs m.a. var sú að við töldum óeðlilegt að færa inn í tekjustofnalögin yfir í útsvarið alla þá fjármuni sem sveitarfélögin töpuðu vegna þess að aðstöðugjaldið var lagt niður, þessa 4 milljarða. Það hlaut að vera eðlilegt að það kæmi upp sú krafa að festa og styrkja það samband sem þarf að vera á milli sveitarstjórnanna og atvinnurekstursins í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Og það er ekkert óeðlilegt við það að tekjustofnalögin séu blanda á tekjum frá einstaklingum og fyrirtækjum því að það er kannski besta tryggingin fyrir því að sveitarfélögin þjóni fyrirtækjum eins og einstaklingum. Það er nefnilega nokkur hætta á því, kannski sérstaklega á þéttbýlissvæðinu hér suðvestanlands, að sveitarfélögin verði misjafnlega upp byggð, í sumum verði atvinnurekstur að stærstum hluta en í öðrum eingöngu íbúðarhúsnæði, og ef tekjustofnarnir ættu að færast eingöngu yfir á einstaklingana, þá sjá allir að það verður mikið misræmi á milli tekjumöguleika sveitarfélaganna innbyrðis. Þess vegna varð að taka tillit til þessa þáttar og það var gert í þeirri nefnd sem vann m.a. að því frv. sem hér er til umræðu.
    Menn hafa sagt hér að það skjóti nokkuð skökku við að ekki skuli vera viðurkennt að í fyrra skuli hafa átt sér stað skattahækkun. Ég ætla ekki að fara ítarlega ofan í þá umræðu sem þá fór fram, en ég skal viðurkenna það og stend við þau orð að það sem fyrst og fremst gerðist fyrir ári síðan var tilfærsla í sköttum frá fyrirtækjum og til einstaklinga í mjög stórum stíl. M.a. hækkuðu tekjuskattarnir um 1,5 prósentustig til þess að standa undir hluta af þeim kostnaði sveitarfélaganna sem þau urðu fyrir þegar þau misstu niður aðstöðugjaldið. Það mun ganga til baka nú, þ.e. tekjuskattarnir munu lækka um þessi 1,5%. Að vísu verða lögð 0,35 prósentustig á tekjuskattinn vegna nýrrar tekjuöflunar. Þetta gerist í stað áforma sem um getur í fjárlagafrv. að leggja atvinnutryggingargjald á öll laun. Það var fallið frá því en í staðinn er lagður á tekjuskattur 0,35%. Það mun koma fram í frv. En tekjustofnar sveitarfélaganna, útsvörin, munu hækka. Hér er sett ákveðið hámark. Og af hverju er þetta hámark heldur hærra en 1,5? Það er m.a. vegna þess að sveitarfélögin áttu kost á því í aðstöðugjaldinu að leggja á aðstöðugjald með mismunandi hætti og okkur þótti óeðlilegt að segja hér kalt og ákveðið við sveitarfélögin: Þið megið taka nákvæmlega þessar tekjur af einstaklingum sem búa í viðkomandi sveitarfélögum. Þið hafið þetta rúm og þennan sveigjanleika í tekjustofnunum rétt eins og það var sveigjanleiki þegar um aðstöðugjaldið var að ræða.
    Hv. 2. þm. Vestf. ræddi hér síðan nokkuð um samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og það var ræða sem ég tel mjög eðlilega og reyndar ræða sem oft hefur verið flutt hér í þingsölum. Menn hafa af því áhyggjur að íslensk verslun sé nokkuð að flytjast úr landinu. Ég vil aðeins segja það um þetta að með því að leggja niður aðstöðugjaldið, jafnvel þótt skrifstofuskatturinn sé færður yfir á sveitarfélögin, þá er samkeppnisstaða íslensku fyrirtækjanna mun betri heldur en áður af íslenskum, skattalegum ástæðum. Það er hins vegar hárrétt að ýmis vara í nágrannalöndunum, til að mynda í Bretlandi, er ódýrari vegna þess að hún ber ekki sams konar skatta og vörur hér á landi. Tökum dæmi.
    Barnafatnaður í Bretlandi er skattlaus, þ.e. hann ber ekki virðisaukaskatt. Þess vegna er hann miklu ódýrari út úr búð. Reyndar geta Íslendingar sem fara í verslunarleiðangur til Bretlands fengið frádrátt, þeir geta fengið niðurfelldan virðisaukaskattinn þar þegar þeir flytja varninginn hingað heim, en innflutningsheimildir hingað eru mjög takmarkaðar og auðvitað eiga tollgæslumenn að fylgjast með því að ekki sé gengið á svig við lögin.
    En það eru önnur atriði sem einnig hafa þýðingu og það eru atriði sem eru athyglisverð fyrir okkur, ekki síst þegar við erum að ræða um Ísland í heimi þjóðanna og kannski samskipti og viðskipti Íslendinga við nágrannaþjóðirnar. Og hvað er það? Jú, það er sú staðreynd að Skotland, Glasgow til að mynda, er svæði sem nýtur verulegra styrkja bæði af hálfu bresku ríkisstjórnarinnar og líka af hálfu Evrópubandalagsins. Með öðrum orðum: Fyrirtæki á þessu svæði eru talin vera í jaðarbyggð, bæði hvað varðar heimalandið, Stóra-Bretland, og einnig í bandalaginu þannig að fyrirtæki á þessu svæði njóta styrkja og

það styrkir að sjálfsögðu samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja fyrir utan allt annað gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Sem betur fer hefur íslenskri verslunarstétt, íslenskum kaupmönnum, tekist --- og það verða þeir að viðurkenna sem fara í verslanir hér í Reykjavík til að mynda --- betur en maður getur ímyndað sér að ná þannig samningum að ýmis varningur hér, til að mynda föt, er ekkert dýrari eða a.m.k. lítið dýrari en sams konar föt í okkar nágrannalöndum. Þetta verðum við að viðurkenna. Að vísu eru föt misdýr en það er trú á því að það sé allt ódýrara í útlöndum sem rekur margt fólk þangað í verslunarleiðangur.
    Þetta eru auðvitað mál sem hljóta ávallt að vera til umræðu en eitt vildi ég láta koma fram í þessari umræðu, niðurfelling aðstöðugjaldsins ein og sér bætir samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja jafnvel þótt verslunar- og skrifstofuskatturinn renni frá ríkinu og til sveitarfélaganna því að stærðarmunurinn á þessum sköttum er svo gífurlegur eins og allir vita og sjá.
    Þetta voru þau atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi láta koma fram fyrst viðveru minnar var óskað í þessari umræðu. Ég hef hér skýrt tekið fram að hugmyndin er sú í prinsippinu að lækka tekjuskattinn um 1,5% hann hækkar hins vegar um 0,35 prósentustig af öðrum ástæðum og svigrúmið sem sveitarfélögin fá, en hækkunin þar getur farið upp í 1,7%, er vegna þess að það var svigrúm í aðstöðugjaldinu. En ég hygg að flest sveitarfélög muni ekki nýta sér þetta að fullu.
    Þeir sem harðast töluðu hins vegar fyrir því --- og á það vil ég leggja áherslu í lokin. Sumir hv. þm. hafa sagt: Það varð stórkostleg skattahækkun í fyrra og hafa lagt áherslu á það og eru enn þá að kyrja þennan söng. --- Þeir sem héldu því fram í fyrra að það hafi orðið stórkostleg skattahækkun þá, eiga að koma hér í ræðustólinn nú og segja að það sé stórkostleg skattalækkun núna. Við hins vegar sem sögðum í fyrra að þetta væri einungis tilfærsla á sköttum milli einstaklinga og fyrirtækja getum ekki haldið því fram nú að um skattahækkun eða skattalækkun sé að ræða af þessum sökum einfaldlega vegna þess að nú er verið að festa í sessi ákveðna tilfærslu þó hún hreyfist örlítið til baka. En ég ætla hins vegar að halda því fram og mér gefst nægur tími til þess í umræðum um frv. sem væntanlega verður hér á dagskrá í næstu viku að ræða um skattabreytingarnar en það er alveg ljóst, svo að ég gefi nú tóninn svona fyrir fram, að þær breytingar munu leiða til skattalækkunar á næsta ári.