Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 16:08:15 (1769)


[16:08]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir efnislega umfjöllun framan af ræðu sinni. Í lokin tók hann svona smáflug sem getur hent alla menn sem vilja lyfta sér en hafa kannski ekki alveg vængina til að fylgja því eftir. En sleppum því. En hann lenti dálítið illa í því atriði að hafa ekki verið við þegar hæstv. félmrh. talaði hér. Félmrh. talaði á þann veg að það væri þingsins að athuga hvort þessu yrði fylgt eftir með verslunar- og skrifstofuhúsnæðið og spurning hvað mundi gerast í þeim efnum og einnig hitt að þetta er bráðabirgðaákvæði í lögunum þannig að ræðufóður verður til staðar á næstu árum meðan þetta er bráðabirgðaákvæði. En hæstv. fjmrh. talaði fyrir því að nú yrði þetta endanlega fast og formlega inni í tekjuskattslögunum og auðvitað mun þingið taka það alvarlega að ganga þá frá þeirri tillögu á þann veg því eins og allir vita hafa sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn sterkan meiri hluta á þinginu til að framkvæma þetta. En hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að komast fram hjá því að það sé að hans frumkvæði sem nú verður flutt breyting við 10. gr., þar verður flutt breyting á þann veg: ,,Við lögin bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða`` stendur hér en næst verður flutt breytingartillaga um að fella þetta út samkvæmt tilmælum hæstv. fjmrh. Það verður svo umhugsunarefni.
    Ég vil aftur á móti lýsa því yfir að ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að ég tel að sveitarfélögin eigi að fá einhverja skatta af atvinnurekstri vegna þess að með því eina móti er hægt að tryggja það að sveitarfélögin þjóni atvinnurekstrinum nægilega vel.