Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 16:16:16 (1774)


[16:16]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er kannski ástæða til þess að greiða örlítið úr þeirri flækju sem menn eru búnir að koma þessum talnaleik í svo menn átti sig betur á hvað er verið að gera. Ég vil fyrst minna á það að með frv. sem hér er til umræðu fylgir ekki með yfirlit frá fjmrn. um áhrif frv. á fjárhagsstöðu ríkissjóðs en ef ég man rétt mun það vera lagaskylda að slíkt fylgi með stjfrv.
    Það hefði kannski einfaldað mönnum að átta sig á áhrifum þess því menn eru að færa skatta frá einstaklingum yfir á sveitarfélögin með millilendingu á ríkissjóði í fyrra og menn þurfa að rifja þetta upp svo það sé öllu til haga haldið.
    Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem komið hefur fram hjá báðum hæstv. ráðherrum sem hér hafa talað að þessi 1,5% tekjuskattur, sem sérstaklega var lagður á í fyrra, verði afnuminn. En ég hlýt að furða mig á því af hverju það er ekki sagt í athugasemdum með 6. gr. þessa frv. að svo eigi að gera. Það hefði auðvitað, ef þetta væri skýr stefna ríkisstjórnarinnar á þeim tíma sem þetta frv. fór í prentun, átt að koma skýrt fram. En það gerði það ekki. Það er tvívegis búið að lesa upp þessa athugasemd þannig að ekki þarf að vitna frekar til þess.
    Ég minni menn á að þessi 1,5% tekjuskattur mun skila ríkissjóði ef ég man þessar tölur rétt um 2,8 milljörðum kr. Síðan tók ríkissjóður í fyrra fleiri skatta til þess að hafa upp í það sem hann ætlaði að greiða sveitarfélögunum fyrir aðstöðugjaldið sem átti að vera 4 milljarðar, ég verð að hafa fyrirvara á tölunum því þær eru ársgamlar í mínu höfði, en þannig er þetta í grófum dráttum. Ef ríkissjóður fellir niður tekjuskattshækkunina þá er hann að fella niður 2,8 milljarða og ég spyr: Hvað um það sem eftir stendur sem gæti verið 1,2 milljarðar eða einhver hundruð milljóna? Hvaða skattar voru það?
    Ég hef ekki gefið mér tíma til að fara í skattafrumvarpið frá í fyrra til að rifja það upp en ég man strax eftir sköttum sem ég gæti nefnt og tengt hugsanlega þessu máli. Hvað með svonefndan lögguskatt á sveitarfélögin? Verður hann lagður niður? Hann er núna reyndar skattur í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Hvað með bifreiðaskatta, bensíngjald? Hækkar bensíngjald, sem mig minnir að hafi verið lagt á upp á 1,50 kr. á lítra til þess að hafa peninga í ríkissjóði upp í þetta? Verða þessir skattar felldir brott þegar þessi útgjöld falla brott úr ríkissjóði? Eða ætlar ríkissjóður að sitja eftir með aðra skatta en tekjuskattinn?
    Ég tel rétt að hæstv. fjmrh. geri aðeins grein fyrir þessu.
    Þá skulum við skoða dæmið gagnvart sveitarfélögunum. Þau eiga að fá hækkað útsvar og hækkaða fasteignaskatta. Útsvar upp á 3,8 milljarða og fasteignaskatta hækkaða upp á 600 millj. Það þýðir að sveitarfélögin eiga að fá 4,4 milljarða kr. sem mér sýnist vera vel það sem þau hafa haft af aðstöðugjaldinu miðað við þær upplýsingar sem fylgja þessu frv. um innheimtu á álögðu aðstöðugjaldi undanfarandi ára. Þannig að það er spurning hvort menn séu ekki líka að bæta við, þannig að sveitarfélögin séu að fá meira heldur en þau láta af hendi. En alltént eru að koma þarna inn til sveitarfélaga 4,4 milljarðar kr. í sköttum.
    Það sem þarf að hafa alveg á hreinu er að niðurstaða þegar búið er að samþykkja skattafrv. þessa árs verði sú að álögurnar á einstaklingana og fyrirtækin aukist ekki um

meira en þessa 4,4 milljarða kr. sem eiga að koma á móti niðurfellingu aðstöðugjalds. Að ríkissjóður haldi ekki eftir einhverjum sköttum sem hann lagði á í fyrra til þess að borga sveitarfélögunum til bráðabirða á þessu ári upp í aðstöðugjöld.
    Ég tel rétt að hæstv. fjmrh., ef hann er tilbúinn til þess, geri aðeins grein fyrir þessum öðrum sköttum þannig að það fari ekki á milli mála.
    Hvað varðar umræður um sérstakan fasteignaskatt að þá var afstaða mín alveg klár til hans. Ég er sömu skoðunar og ég hef verið áður sem sveitarstjórnarmaður þegar við börðumst fyrir því að aðstöðugjaldið yrði haft þannig að það væri ekki atvinnuvegagreint, það væri ekki misjafnt aðstöðugjald eftir atvinnugreinum, og ég tel að þessi skattur eigi ekki að vera misjafn eftir atvinnugreinum því það er eins og aðstöðugjaldið gerði, það mismunar sveitarfélögum. Ég tel það ekki skynsamlegt að framlengja mismunakerfið sem verið hefur með þessum hætti.
    Það er fróðlegt í ljósi þeirra orða sem hér féllu fyrr í þessari umræðu, m.a. hjá hæstv. fjmrh. um dreifbýlisverslunina, að lesa svar viðskrh. við fsp. Einars Más Sigurðarsonar um stuðningsaðgerðir til dreifbýlisverslunar en þar kemur fram að á fjárlögum síðasta árs voru ekki nema 2 millj. kr. til þessara hluta og að þær voru ekki einu sinni nýttar til þess sem ætlast var. Ég vil ítreka það sem ég hef látið koma fram í andsvörum við hæstv. félmrh. því ég er ekki sáttur við svör ráðherrans, að ég sé ekki betur en að verið sé að taka af þeim sveitarfélögum, sem hafa fengið fjórðung af landsútsvari til sín, tekjustofn sem þau fá ekki bættan. Svar hæstv. félmrh. um að þessi sveitarfélög ættu að bæta sér þennan missi með fasteignasköttum og hækkuðu útsvari gildir ekki, gengur ekki að mínu viti því að sveitarfélögin öll eiga að bæta sér aðstöðugjaldið með þessum sköttum. Það er ekki hægt, þessi sveitarfélög sem hafa fengið þetta sérstaka landsútsvar, hafa ekki svigrúm til þess að ná inn fyrir því. Þannig að mér sýnist ljóst að það er verið að taka af nokkrum sveitarfélögum á landinu tekjur sem þau eiga ekki að fá. Ég tel heiðarlegra hjá hæstv. ráðherra að viðurkenna það en að fara undan í flæmingi. Það er svo annað sjónarmið sem menn geta rætt, hvort það sé réttlátt eða ekki að gera slíkt, en menn eiga að viðurkenna staðreyndir í þessu máli.
    Þetta vildi ég ítreka, virðulegi forseti, þannig að menn héldu ekki að ég teldi að hæstv. félmrh. hefði svarað þessu með fullnægjandi hætti áðan hvað varðar bætur fyrir landsútsvar.