Orlof

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 16:29:12 (1777)


[16:29]
     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 30/1987, um orlof. Frv. er svohljóðandi:
    ,,4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er heimilt að greiða mánaðarkaupsmönnum, að fengnu samþykki þeirra, orlofslaun á sama tíma og reglubundnar launagreiðslur fara fram. Þá getur launþegi ákveðið að orlofslaun hans verði greidd jafnharðan á sérstakan orlofsreikning launþega hjá banka eða sparisjóði, enda sé tryggt að sá aðili, sem tekur að sér vörslu orlofslauna, geri upp áunnin orlofslaun, þ.e. höfuðstól og vexti, við launþega við upphaf orlofstöku.``
    Í frv. er gert ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. maí 1994, eða við upphaf næsta orlofsárs.
    Með þessu frv. fylgir eftirfarandi grg., með leyfi forseta:
    ,,Með frumvarpi þessu er lögð til sú grundvallarbreyting á ákvæði 7. gr. laganna að launþegi geti sjálfur ákveðið hvar og hvernig hann geymir orlofsfé sitt. Hann getur valið milli þess að geyma það í því fyrirtæki sem hann starfar hjá eða ávaxta það hjá þeim banka eða sparisjóði sem hann kýs. Eina skilyrðið í tillögugreininni er að bankinn eða sparisjóðurinn tryggi að áunnin orlofslaun verði gerð upp við upphaf orlofstöku.
    Lagt er til að lagabreytingin öðlist gildi við upphaf næsta orlofsárs.``
    Virðulegi forseti. Efni frv. er afar skýrt. Það er gert ráð fyrir því í frv. að sú breyting verði að í stað þess að meginreglan sem í dag er sú að orlof launþega er geymt í fyrirtæki þar sem hann starfar, hvort sem hann vill eða ekki, þá verði tekin upp önnur meginregla sem er sú að launþeginn sjálfur ráði því hvar hann ávaxti orlof sitt, hvort það verði í fyrirtækinu eða í banka eða sparisjóði. Ég minni á að hér er um geysilegar fjárhæðir að ræða sem kunna að vera ávaxtaðar í bönkum eða sparisjóðum eftir breytinguna, í stað þess að vera geymt vaxtalaust og verðbótalaust hjá fyrirtækjum eins og nú er. Ég hygg að breytingin sé í takt við þá þróun sem verið hefur á undanförnum áratugum í þá átt að menn ráðstafi eigum sínum í ríkari mæli sjálfir heldur en nú er.
    Virðulegi forseti. Ég vil svo leyfa mér að lokinni þessari umræðu að leggja til að

málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.