Erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 17:14:04 (1785)

[17:14]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil eins og síðasti ræðumaður þakka framlagningu þessa máls. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við tökum umræðu um þessi mál hér í þinginu. Við gerðum það reyndar fyrir viku eða hálfum mánuði síðan eins og kom fram í orðum beggja ræðumanna sem hér hafa talað á undan.
    Ég get alveg tekið undir það með flm. þessarar tillögu að það er áhyggjuefni að það virðist nánast ekki vera nokkur áhugi erlendra aðila á fjárfestingu hér á landi, þ.e. í þá veru að menn séu að fjárfesta hér með það eitt markmið í huga að ávaxta þá peninga sem menn leggja í fjárfestinguna. En staðreyndin er nú hins vegar sú að menn geta haft áhuga á að fjárfesta með tveim mismunandi markmiðum og þannig er erlend fjárfesting flokkuð, annars vegar eins og ég sagði áðan að menn fjárfesti til þess eins að ná sambærilegri ávöxtun á sitt fé og þeir geta fengið annars staðar. Hin tegundin af fjárfestingu er þá að menn eru að fjárfesta til þess að kaupa sér einhvers staðar ítök og reikna sér þá ekki beinan arð beint af fjárfestingunni, heldur hugsa sér að arðurinn komi af afleiddri starfsemi. Og það er kannski einmitt slík fjárfesting sem væri það eina sem útlendingar gætu haft áhuga á að fjárfesta í hér í dag, þ.e. að fjárfesta í okkar sjávarútvegi til þess að tryggja sér aðgang að hráefni. Það er reyndar út frá þeim forsendum sem hér eru í gildi ákveðnar hömlur á fjárfestingu á því sviði. Það er mál sem er afar vandmeðfarið og ég ætla ekki að fara mikið meira út í hér og var rætt um daginn í tengslum við frv. um erlenda fjárfestingu hér á landi. Ég ítreka þó það sem ég sagði þá að ég tel að þar verði menn að hliðra eilítið til og finna nýjan flöt á því máli. Það algera fjárfestingarbann sem lagt er til í frumsjávarútvegi, ég held bara að það sé einfaldlega ekki hægt að framfylgja því. Það sem skiptir máli er að við höldum okkar efnahagslega sjálfstæði og höldum yfirráðum yfir þessari mikilvægustu auðlind okkar.
    Það hefur verið nokkuð rætt um fjárfestingu hér á landi að undanförnu. Mitt stærsta

áhyggjuefni varðandi fjárfestingu í dag er það að fjárfesting hér á landi er orðin allt of lítil. Hún er orðin minni heldur en afskriftirnar sem þýðir einfaldlega að atvinnutækin eru að ganga úr sér og við fjárfestum ekki heldur í þekkingu og markaðsöflun.
    Það hefur verið rætt um offjárfestingar á undanförnum árum og áratugum og mikið rætt um það að þær hafi verið að frumkvæði þeirra ríkisstjórna sem þá sátu og stjórnmálamanna. Nú vil ég ekki neita því að eitthvað slíkt kunni að hafa átt sér stað. En ef við hins vegar lítum yfir sviðið síðustu árin svona með eilítilli sanngirni, þá áttum við okkur fljótt á því að stærstu fjárfestingarnar liggja kannski ekki endilega á því sviði, í það minnsta er ekki hægt að segja að þær hafi verið framkvæmdar í nafni byggðastefnu eins og sumir halda fram að hafi verið um allar offjárfestingar á síðustu árum. Ég nefni í því sambandi að stærstu fjárfestingar sem e.t.v. mætti flokka undir fjárfestingamistök á síðustu áratugum er Blönduvirkjun upp á eina 15 milljarða og sú ákvörðun er af hálfu tekin af Reykjavíkurborg sem á helminginn í því fyrirtæki.
    Önnur fjárfesting sem er kannski ekki hægt að tala um í einu lagi er offjárfesting í skrifstofu- og verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem menn þurfa illu heilli að borga af hinn illræmda skatt sem hér var til umræðu áðan en það hafa nýlega komið fram upplýsingar um að þar sé um að ræða húsnæði upp á um 200 þús. fermetra. Og það þarf ekki flókinn útreikning út frá byggingarkostnaði til að sjá að hér er um að ræða húsnæði að verðmæti 20--25 milljarðar kr.
    Menn nefna loðdýrarækt og fiskeldi. Það er alveg rétt að þar var farið glannalega, fyrst og fremst hvað það snerti að menn höfðu allt of frjálsan aðgang að lánsfé í þeim greinum, lánsfé sem menn gátu ekki staðið undir, en ef við skoðum þá fjárfestingu þá held ég að að sé ekki nema lítill hluti af því sem sé bein afleiðing ákvörðunar stjórnmálamanna, í það minnsta ekki þær fiskeldisstöðvar sem girtu nánast strandlengjuna frá Þorlákshöfn og út á Reykjanestá. En vissulega hefði verið æskilegra að þessi fjárfesting hefði beinst að nokkru í aðrar áttir. Það sem skortir og hefur skort á með fjárfestingu hér á síðustu árum og áratugum er það að við höfum alltaf verið að fjárfesta í mannvirkjum en það hefur vantað að það hafi verið fjárfest í rannsóknum og þróunarstarfsemi sem hægt væri síðan að byggja frekari atvinnuuppbyggingu á. Og það er nú kannski það sem okkur vantar öðru fremur núna til þess að laða að erlenda fjárfesta að hafa tilbúna fjárfestingarkosti þar sem búið væri að leggja í grunnvinnuna varðandi rannsóknir og þróun.
    Virðulegi forseti. Ég taldi ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um þessa tillögu því að þetta er málefni sem er mér hugleikið. Okkar atvinnulíf býr við fjársvelti og ef hægt er að nefna eitthvert einkenni á íslensku atvinnulífi sem aðgreinir það frá okkar nágrannalöndum þá er það öðru fremur það að hér er eigið fé í atvinnurekstrinum allt of lítið og fyrirtækin þess vegna vanmegnug að taka á sig sveiflur í efnahagslífinu og það sem er kannski enn þá verra að þau hafa ekki fjármagn til þess að þreifa sig áfram og prófa sig áfram í nýrri atvinnustarfsemi. Það er því mjög eðlilegt að menn leiði hugann að því eins og flestallar þær þjóðir sem við erum að bera okkur saman við, að menn reyni að laða að erlenda fjárfesta.