Erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 17:22:22 (1786)


[17:22]
     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls um þessa tillögu og tóku drengilega undir málflutning minn og telja báðir greinilega að verk af þessu tagi eigi við og muni í framtíðinni bæta lífskjör almennings í gegnum aukna fjölbreytni í atvinnulífinu, auknar fjárfestingar sem leiða til fleiri atvinnutækifæra.
    Ég hygg að það sé ástæða til að rifja aftur upp ummæli hv. 4. þm. Reykv. úr ræðu hans um annað mál fyrr á þessum fundi. Ég vænti þess að við náum slíkum tökum á afskiptum stjórnvalda af málefnum atvinnulífs, að það muni leiða til frjálsari hátta í starfsemi. Þá verður hér frjálsra mannlíf og þá mun atvinnulífið fá öll þau færi sem það kemur auga á til að leiða fram betri lífskjör okkur sjálfum og afkomendum okkar til heilla.
    Það er eðlilegt að menn séu ekki allir sammála skoðunum mínum á þeim fjárfestingum sem orðið hafa á undanförnum árum eða áratugum en án þess að hlaupa beinlínis í umræður þar um þá verð ég að segja þá skoðun mína sérstaklega að mér virðist að svo miklu leyti sem ekki hefur leitt af ákvörðunum opinberra aðila, ríkisstjórnar eða sveitarstjórna, þá megi rekja til fábreyttra möguleika innlendra fjárfesta, fábreyttra möguleika þeirra einstaklinga sem upp vaxa á Íslandi og hyggjast sjálfir taka þátt í atvinnulífi, ekki aðeins sem starfsmenn annarra heldur sem athafnamenn með sínar eigin hugmyndir í brjósti. Þeirra tækifæri og þeirra möguleikar hafa verið fábreyttir og í raun og veru er atvinnulífið fyrir það fábreytt að það kveikir ekki margar nýjar hugmyndir.
    Ég mundi vænta þess að tilkoma erlendra fjárfesta og erlendra athafna á Íslandi mundi kynna okkur og uppvaxandi Íslendingum mun fleiri möguleika, mun fleiri tækifæri heldur en við höfum hagnýtt okkur í dag og þá værum við mun betur á vegi stödd.