Ríkisreikningur 1992

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 17:39:36 (1788)


[17:39]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að mæla fyrir þessu máli hér og nú en ég var ekki viðstaddur fram að þessum tíma. Ég mæli fyrir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1992, 217. mál þessa þings á þskj. 242.
    Frv. þetta er samið eftir ríkisreikningi fyrir árið 1992 sem lagður var fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til forseta Alþingis í sept. 1993. Með ríkisreikningi ársins 1989 var stigið veigamikið skref í þá átt að færa uppgjör ríkissjóðs nær almennum reikningsskilavenjum í atvinnurekstri. Breytingin felur fyrst og fremst í sér að í ríkisreikning eru færðar allar skuldbindingar og kröfur A-hluta ríkissjóðs óháð því hvort þær eru gjaldfallnar eða ekki. Ákvæði laga um gerð ríkisreiknings, nr. 52/1966, með síðari breytingum, gera ráð fyrir að ríkisreikningur sé gerður upp á rekstrargrunni.
    Breytingin tekur einnig til þess að ábyrgðir ríkissjóðs á rekstri og skuldbindinum séu metnar og færðar í ríkisreikning eftir því sem þær eru best þekktar. Þeim er hins vegar hagað með ýmsum hætti í uppgjörum. Ábyrgðir vegna rekstrar stofnana í A-hluta ríkissjóðs eru tiltölulega skýrar og auðmetnar, en málið er flókið þegar tekur til ábyrgða á fyrirtækjum og sjóðum í ríkiseign, svo og ýmsum öðrum aðilum sem ríkissjóður veitir ábyrgð. Einnig þarf að ákveða færslur á eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum og sjóðum í efnahag A-hluta ríkisreiknings, svo og með hvaða hætti rekstrarniðurstaða ársins og breytingar á eigin fé þeirra kemur þar fram.
    Þannig koma ýmis álitamál upp þegar ákvarða skal reikningsfærslu slíkra ábyrgða og skuldbindinga. Mikilvægt er að um þær gildi samræmdar og skýrar vinnureglur. Þetta er eitt af þeim viðfangsefnum sem ríkisreikningsnefnd hefur nú til úrlausnar. Undir þessa málsmeðferð fellur m.a. ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindinum Framkvæmdasjóðs Íslands. Með lögum nr. 3/1992 breyttist hlutverk og staða sjóðsins þar sem útlánastarfsemi hans var m.a. lögð af. Samkvæmt endurskoðuðu uppgjöri sjóðsins er eigið fé hans neikvætt um 830 millj. kr. í lok ársins 1993. Um það er ekki deilt að ríkissjóður ber fulla ábyrgð á þessum skuldbindingum. Það sama má einnig segja um neikvæðan höfuðstól Atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar í árslok 1992 og e.t.v. fleiri aðila.
    Þar til ríkisreikningsnefnd hefur gert tillögu um samræmdar reglur um bókhaldsmeðferð skuldbindinga og ábyrgða ríkissjóðs hafa hlutaðeigandi orðið ásáttir um að færa neikvætt eigið fé umræddra sjóða ekki í ríkisreikning.
    Frv. er samkvæmt venju í þremur greinum. Í 1. gr. eru sýndar niðurstöður rekstrar- og efnahagsreiknings A-hluta ríkissjóðs og í 2. gr. eru með sama hætti niðurstöðutölur rekstrar og efnahagsreiknings B-hluta stofnana ríkisins. 3. gr. felur svo í sér gildistökuákvæði laganna.
    Niðurstöður ríkisreiknings sýna að rekstrarafkoma A-hluta ríkissjóðs á árinu er neikvæð um 10 milljarða 592 millj. kr. en var árið á undan neikvæð um 13 milljarða 450 millj. kr.
    Heildartekjur námu 106 milljörðum rúmlega og er það hækkun frá fyrra ári um 59 millj. kr. eða innan við 0,1%.
    Heildargjöld ríkissjóðs urðu 116 milljarðar 631 millj. kr. á árinu en voru árið áður 119 milljarðar 430 millj. kr. Lækkun milli ára eru 2,8 milljarðar eða u.þ.b. 2,3%.
    Meðalhækkun verðlags milli áranna 1991 og 1992 á mælikvarða landsframleiðslu er 3,4% þannig að raunlækkun gjalda nemur 5,6%.
    Ef niðurstöður ríkisreiknings eru bornar saman við uppgjör ríkissjóðs á greiðslum ársins er afkoman betri samkvæmt greiðsluuppgjöri eða sem nemur 3,4 milljörðum kr. Tekjur eru alls 2,6 milljörðum kr. hærri í reikningsuppgjöri þar sem álagðar tekjur ársins verða hærri en það sem innheimtist á árinu. Af þeirri fjárhæð er 1,7 milljarða kr. aukning á eftirstöðvum virðisaukaskatts og 0,6 millj. kr. vegna áfallinna vaxtatekna.
    Þá aukast eftirstöðvar tekjuskatts einstaklinga um 300 millj. kr.
    Gjöldin eru 6 milljörðum kr. hærri í reikningsuppgjöri, munar þar mestu um áfallna vexti, umframgreidda, eða það eru u.þ.b. 3,9 milljarðar kr., þar af eru 3,2 milljarða kr. hækkun á vöxtum spariskírteina ríkissjóðs.
    Lífeyrisskuldbindingar hækka um 1,8 milljarð kr. frá fyrra ári, niðurfærsla hlutafjáreignar í Íslenska járnblendifélaginu hf. hækkar gjöldin um 800 millj. kr. frá greiðsluuppgjöri. Á móti vegur að í greiðsluuppgjöri eru færðar til gjalda greiðslur sem koma til lækkunar skuldbindingum fyrri ára. Þar má nefna að niðurgreiðslur landbúnaðarafurða lækka um 400 millj. kr. og skuld ríkissjóðs við sveitarfélög vegna skólabygginga lækkar úr sömu fjárhæð.
    Önnur frávik á gjaldahlið eru lægri og til skýringar á þeim vísast til greinargerðarinnar með frv. auk ríkisreikningsins sjálfs.
    Varðandi frekari greinargerð um niðurstöðu á framvindu ríkisfjármála á árinu 1992 vísast til skýrslu fjmrh. frá því í febrúar sl. um ríkisfjármál á því ári og endurskoðunarskýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um ríkiseignir 1992.
    Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að þar til ríkisreikningsnefnd hefur gert tillögur um samræmdar reglur um bókhaldsmeðferð skuldbindinga og ábyrgða ríkissjóðs hafa hlutaðeigendur orðið ásáttir um að færa neikvætt eigið fé þeirra sjóða sem ég gat um í minni ræðu, þar er um að ræða atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar og Framkvæmdasjóðs Íslands, ekki í ríkisreikning. Vonir standa til að starfi ríkisreikningsnefndar ljúki í lok þessa árs og ætti í kjölfarið á því að takast gott samkomulag um það hvernig færa skuli ríkisreikning og fjárlög að loknum samþykktum fjáraukalögum og hugsanlega fjárlagafrv. en staðið hefur til að hægt sé að færa upp öll þessi frv. með sama hætti þannig að bera megi saman tölur frá einu ári til annars. Það sem truflar er að sjálfsögðu að efnahagsreikningur ríkisins er ákaflega ófullkominn og þótt skuldbindingar eða upplýsingar um skuldbindingar séu í nokkuð góðu lagi, þá verður ekki hið sama sagt um eignir á efnahagsreikningi.
    Ég vil að lokum leggja til, virðulegi forseti, að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og fjárln.