Tekjuskattur og eignarskattur

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 17:57:21 (1792)


[17:57]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem aðeins til þess að þakka flm. þessa frv. fyrir að leggja það fram hér aftur. Það er rétt eins og hann sagði að frv. kom það seint fram á síðasta þingi að ekki náðist að afgreiða það, en ég vænti þess að þetta sé það mikið réttlætismál að það fái góðan framgang á þessu þingi.
    Hann gat þess einmitt að það væri mjög óréttlátt að þeir sem væru að kaupa sína fyrstu og kannski einu íbúð og gætu ekki nýtt hana til eigin nota um einhvern tíma vegna náms eða veikinda gætu ekki fengið vaxtabætur vegna þess að þeir byggju ekki í íbúðinni.
    Það eru einnig dæmi um það að leiga sem viðkomandi yrði þá að greiða á öðrum stað kemur ekki til frádráttar þeirri leigu sem hugsanlega fæst þá af þessari íbúð sem verið er að leggja fjármagn í og koma sér upp, heldur er leiga af eignaríbúðinni skattlögð að fullu. Það hefur raunar einnig komið fram hér frv. í þá veru að leiðrétta þá mismunun fyrr í haust. Þessi mál eru skyld að nokkru leyti og horfa bæði í þá átt að leiðrétta þetta óréttlæti sem hér viðgengst í lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Ég hef lagt hér fram inn í þingið, og það er ekki komið til umræðu enn, fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um það hvort ekki sé fyrirhuguð heildarendurskoðun á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, því að maður verður oft og iðulega var við það að í þessum lögum eru ýmis ákvæði eins og þetta sem eru verulega óréttlát. Ég held að það þurfi að fara að skoða þessi mál í heild sinni miklu betur en gert hefur verið nú um allmörg ár. Og þó að þetta og fleiri slíkar leiðréttingar sem hér er verið að koma á séu af hinu góða, þá tel ég að það séu mjög margir gallar í þessum lögum og framkvæmd þeirra og reglugerðum sem settar eru með hliðsjón af þessum lögum. Þetta er stór og mikill lagabálkur, lögin um tekjuskatt og eignarskatt, og sjálfsagt mikið mál og erfitt að fara í gegnum það, en ég tel að það sé alveg nauðsynlegt.
    Ég vil að lokum aðeins lýsa yfir stuðningi við frv. sem hér er flutt því að það er vissulega til bóta ef það væri samþykkt.