Framlagning skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 13:37:53 (1800)


[13:37]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég missti reyndar af upphafi þessarar umræðu en mig langar til að skýra stöðu þessa máls.
    Þau frumvörp sem væntanleg eru, þ.e. tvö frumvörp um ríkisfjármál, annað sem snýr að gjaldamálunum og hitt að tekjumálunum eða skattamálunum, hafa verið til meðferðar í þingflokkum stjórnarflokkanna og væntanlega verður skattafrv. lagt fram á þingi á morgun. Og nefndarmenn í hv. efh.- og viðskn. munu fá frv. sent í dag.
    Nánast öll þau atriði sem máli skipta í þessum frumvörpum, og þó sérstaklega skattafrv. hafa verið til opinberrar umfjöllunar upp á síðkastið, annars vegar vegna þess að hér í þingsölum hefur verið rætt um tekjustofna sveitarfélaganna og hins vegar vegna þess að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði hafa farið fram og nánast öll atriði sem er að finna í skattabandorminum eru atriði sem eiga rætur að rekja til þess samkomulags.
    Þegar á heildina er litið er hér um að ræða skattalækkunarfrv. (Gripið fram í.) Ég hefði kosið, virðulegi forseti, að þetta frv. hefði verið lagt fram í dag þannig að um það hefði verið hægt að fjalla sem fyrst á hinu háa Alþingi. Frv. er ekki síðar á ferðinni en verið hefur á undanförnum árum en ég vænti þess að frv. verði rætt hér þegar í næstu viku, líklega á þriðjudaginn, þannig að þá verði 1. umr. málsins en frv. verður lagt fram á þinginu á morgun og hv. nefndarmenn fá frv. til sín í dag.
    Ég vil að lokum segja það að ég vonast til þess að góð samstaða takist um það hér á hinu háa Alþingi að afgreiða málið, enda er brýnt að það fái afgreiðslu fyrir áramót.