Framlagning skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 13:40:08 (1801)


[13:40]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég eins og aðrir heyrði það í fréttum í gær og í ,,Pólitíska horninu`` í gærkvöldi og í morgun að það væri verið að leggja til víðtækar breytingar á tekjum ríkissjóðs í fjárlagafrv. Við höfum margsinnis gagnrýnt það hér á hinu háa Alþingi að slíkar veigamiklar breytingar, sem lögum samkvæmt á að ræða á þingi og ákvarðast hér, skuli fyrst koma í fjölmiðla.
    Ríkisstjórnin tilkynnir þetta fyrst í fjölmiðla og hæstv. fjmrh. heldur fund með Verslunarráðinu í morgun til þess að fara yfir þetta mál, en þingmenn hafa ekki enn fengið frv. í hendur. Ég spurði um þetta sérstaklega í fjárln. í morgun og hv. formaður okkar svaraði því að við mundum að sjálfsögðu fá þetta, en gat ekki svarað því hvenær. Og nú kemur í ljós að efh.- og viðskn. sem fjallar um skattamál hefur heldur ekki séð þetta enn þá.
    Ég tel að hér sé framkvæmdarvaldið enn einu sinni að sýna löggjafarvaldinu mikla lítilsvirðingu.