Framlagning skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 13:43:29 (1803)


[13:43]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hér er með réttu verið að kvarta yfir því að ríkisstjórnin sýnir ekki Alþingi skattafrumvörpin, en við nánari athugun sýnist mér að það sé nú kannski skýring á því. Fjmrh. kynnti þessi frumvörp í morgun á fundi Verslunarráðsins. Þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn Verslunarráðsins og að sjálfsögðu þarf samþykki kolkrabbans áður en farið er að leggja fram þingskjöl með skattafrumvörpum og þar gat hæstv. fjmrh. með góðri samvisku sagt að hér væri um skattalækkunarfrumvörp að ræða vegna þess að Kolli frændi þarf ekki að bera hærri skatta. ( Fjmrh.: Er hann þá ekki sameiginlegur frændi?)
    Það er höfuðnauðsyn fyrir hv. alþm. að fylgjast vandlega með sjónvarpsfréttum. Ég hef ekki tíma til að fara hér nánar út í ættfræði, en ég hygg nú samt að armar kolkrabbans hafi læst sig fastar um hæstv. fjmrh. heldur en mig.