Framlagning skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 13:47:46 (1806)


[13:47]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. segir okkur það að þessi mál hafi verið í opinberri umræðu og aðilar vinnumarkaðarins séu nú búnir að ganga frá þessu með ríkisstjórninni. Væntanlega er hæstv. fjmrh. þá að segja að það sé bara formsatriði að renna þessu hér í gegnum Alþingi og Alþingi setji sinn stimpil á málið. Eins og ég sagði hér í mínum fyrri orðum þá er þetta á engan hátt í samræmi við þann ásetning, í það minnsta að ég tel meiri hluta alþingismanna, að færa störf þingsins til betri vegar og efla sjálfstæði og styrk Alþingis. Ef til vill er það þannig að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. hefur ekki nokkurn áhuga á því, það sé einlægur ásetningur ríkisstjórnarinnar að herða frekar á þeirri miðstjórnaráráttu og þeirri áráttu framkvæmdarvaldsins að ganga alltaf á valdsvið þingsins.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, endurtaka fyrir hæstv. fjmrh., af því að hann var ekki mættur hér í upphafi fundar, síðustu orð mín í fyrri ræðu minni um þetta mál, varðandi það sem hann sagði um þá vinnu sem hefði farið fram um þessi mál gagnvart aðilum vinnumarkaðarins. Þá minnti ég á það að í allri þeirri vinnu sem fram hefur farið á milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins um þessi mál, þá hefur ríkisstjórnin aldrei séð ástæðu til þess að kynna málið fyrir efh.- og viðskn. Alþingis og er hún þó starfandi allt árið. Á þetta var bent á sl. sumri.
    Ég vil einnig minna hæstv. fjmrh. á að það er Alþingi eitt sem leggur á skatta eða breytir sköttum, breytir skattalögum. Slík vinna getur hvorki farið fram hjá aðilum vinnumarkaðarins né á fundum hjá Verslunarráði Íslands.