Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:25:08 (1815)

[14:24]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar umræður fóru fram um þetta mál hér í síðustu viku þá þurftum við sumir að fara frá þeirri umræðu vegna jarðarfarar. Ég átti hins vegar von á því að hæstv. dómsmrh. mundi tala í þessari umræðu nokkuð snemma svo skoðanir hans á málinu, ef hann hefur myndað sér þær, gætu legið fyrir hér í umræðunni. Ef hæstv. ráðherra kýs hins vegar að taka sér tíma til að hugleiða málið og lýsa ekki við þessa umræðu afstöðu til þessara tillagna þá er það út af fyrir sig jákvætt vegna þess að það endurspeglar það að hann er með opinn hug gagnvart tillögunni. Ef hann er aftur á móti algerlega andvígur frv. þá hefði ég nú kosið að heyra rökin fyrir því hér við þessa 1. umr.
    Þingmenn úr Framsfl. og Kvennalista lýstu hins vegar skilningi og jafnvel stuðningi, að mér er tjáð, við frv. þegar það kom til umræðu þó að ég sé ekki að lesa í þeirra ræður flokkslega afstöðu. Hitt er ljóst að okkur er greinilega nokkur vandi á höndum með skipan Hæstaréttar á Íslandi. Hæstiréttur gegnir sífellt mikilvægara hlutverki í okkar þjóðskipulagi. Ástæðan er sú að umfang löggjafar er sífellt meira og meira og snertir sífellt fleiri og fleiri þætti í bæði efnahagsmálum, samfélagsþáttum og samskiptum einstaklinga innbyrðis og við stjórnvöld. Jafnframt er ljóst að tilhneiging er til þess, þótt hún sé umdeild, að Hæstiréttur kveði upp úrskurði sem séu taldir stefnumótandi í almennum skilningi, stefnumótandi á þann veg að Alþingi hefði e.t.v. frekar átt að taka sér fyrir hendur að breyta lögunum heldur en að láta Hæstarétt lesa inn í þau nýja túlkun.
    Allt þetta knýr auðvitað á um það að Hæstiréttur sé skipaður þannig að menn beri almennt traust til þeirra dómara sem í réttinum eru. Nú þekkjum við það úr sögu íslenska stjórnkerfisins, og það eru í sjálfu sér ekki ný sannindi, að trúnaðarstöður á vettvangi dómsvalds voru oft taldar réttmætur fengur þeirra stjórnmálaflokka sem fóru með dómsmrn. á hverjum tíma. Áratugum saman voru menn skipaðir í embætti sýslumanna, sem voru héraðsdómarar, út frá því hvort þeir væru flokkslega tengdir dómsmrh. Og vegna þess að Framsfl. og Sjálfstfl. fóru áratugum saman til skiptis með dómsmrn. þá mátti nokkuð rekja það hvernig pólitísku flokkatengslin höfðu haft áhrif á embættaveitingarnar eftir því hvenær viðkomandi sýslumaður tók við embætti. Það tíðkaðist einnig á þeim tíma að sýslumenn sátu hér á Alþingi og tóku þátt í því að setja lögin og mikill fjöldi sýslumanna hefur á þessari öld þess vegna setið samtímis í öllum hlutverkum hins þrígreinda ríkisvalds, sem framkvæmdarvaldshafi, sem dómsvaldshafi og sem hluti að löggjafarvaldinu. Þessi tími er liðinn. Ég held að það sé að minnsta kosti rúmur áratugur síðan sýslumaður sat hér á þingi og þeir sem gegnt hafa embættum við borgardóm og nú héraðsdóma hafa almennt dregið sig út úr starfi á vettvangi stjórnmála.
    Engu að síður er það þannig að leifarnar af þessu gamla kerfi, því gamla kerfi að flokksleg tengsl

hugsanlega hafi úrslitaáhrif á veitingu dómaraembætta við Hæstarétt, eru að birtast okkur á allra síðustu árum. Ég hef nefnt hér tvö dæmi til að rökstyðja mál mitt, ekki vegna þess að ég telji viðkomandi einstaklinga í sjálfu sér ekki vera hæfa heldur þykir mér nokkuð ljóst að ástæðan fyrir því að þeir voru teknir fram yfir aðra umsækjendur fólst í flokkslegum tengslum við þá dómsmrh. sem þá sátu. Hér á ég við þegar Hrafn Bragason var skipaður í réttinn af Jóni Sigurðssyni og þegar Pétur Hafstein var skipaður í réttinn af núv. hæstv. dómsmrh. Í báðum tilvikum sóttu aðrir um dómarastöðurnar sem tvímælalaust höfðu meiri rétt, faglega, embættislega og út frá almennum sjónarmiðum. Fyrri umsækjandinn sem ég nefndi var hins vegar af þekktum alþýðuflokksættum og þetta var í fyrsta sinn í langan tíma sem Alþfl. fór með dómsmálaráðherraembættið. Síðari einstaklingurinn hafði tekið virkan þátt í valdabaráttu innan Sjálfstfl. fyrir rúmum tveimur árum síðan í aðdraganda landsfundar og ritað sérstaka stuðningsgrein við þáv. formann Sjálfstfl. Þorstein Pálsson.
    Það er auðvitað mjög vont að á málum sé haldið þannig að menn geti dregið þær ályktanir, með þó nokkrum rökum, að flokkspólitískir hagsmunir eða sjónarmið, eða tilhliðrunarsemi, hafi ráðið miklu um val á mönnum til að sitja í Hæstarétti. Vonandi heyrir það liðinni tíð.
    Við ræddum hér fyrir nokkru síðan, ég og hæstv. forsrh., um þetta vandamál og forsrh. sagði með réttu að afskipti manna af stjórnmálum á námsárum í háskóla eða á yngri árum ættu auðvitað ekki að brennimerkja menn í þeim efnum til allrar lífstíðar. Það er alveg rétt skoðun ( ÓÞÞ: Menn skipta stundum um skoðun.) já, já og sumir skipta um skoðun, það er alveg rétt. Og ég var ekki í lýsingu minni á núv. Hæstarétti að halda fram því sjónarmiði. En það vekur óneitanlega athygli hve margir af núverandi dómurum við Hæstarétt hafa á sínum starfsferli verið mjög virkir í flokksstarfi Sjálfstfl. Nú er ég ekki þar með að segja að það hafi áhrif á þeirra niðurstöðu, en það er auðvitað óheppilegt að svo stór hluti réttarins sé skipaður með þeim hætti, sérstaklega í ljósi þess að viðfangsefni Hæstaréttar, eins og ég nefndi áðan, í æ ríkara mæli, tengjast almennri þjóðmálalegri afstöðu. Þess vegna tel ég það vera til mikilla bóta að þannig sé haldið á veitingu dómara við Hæstarétt að ljóst sé að viðkomandi einstaklingar njóti víðtæks stuðnings. Við höfum nokkra reynslu af því hér á Alþingi þegar, eftir margra, margra ára umræðu, loksins var samþykkt að setja á laggirnar embætti umboðsmanns. Þá var farin sú leið til að tryggja að sá einstaklingur nyti víðtæks stuðnings, að hann væri kosinn án framboða í þingsal og án umræðu. Ég tel að það sé tvímælalaust stuðningur fyrir umboðsmann Alþingis að hafa slíka fylkingu þingmanna á bak við sig. Við sjáum t.d. þessa dagana, það má lesa í Morgunblaðinu í dag, hvernig umboðsmaður er að kveða upp úrskurði sem koma t.d. formanni Alþfl., hæstv. utanrrh., óþægilega pólitískt. Umboðsmaður er greinilega að sýna fram á það að pólitískar embættaveitingar Alþfl. og ráðstafanir í flokkspólitískri þágu eiga ekki bara við embætti Seðlabanka eða sendiherraembætti, heldur hafa líka áhrif á það hverjir eru tollverðir og hverjir fá verktakasamninga við varnarliðið. Frásögn Morgunblaðsins í dag af úrskurði umboðsmanns í þeim efnum er auðvitað mjög fróðleg og vörnin sem utanrrh. er með í Morgunblaðinu í dag um tollvarðarembættið sýnir líka að í raun og veru eru ekki orðin nein mörk lengur milli þessara embætta, viðfangsefna þeirra og þess sem er stjórnmálaumræðan í landinu.
    Og eins og mikilvægt er að stjórnsýsluúrskurðaraðili, eins og umboðsmaður Alþingis, njóti víðtæks stuðnings er enn frekar nauðsynlegt að hæstaréttardómarar geri það. Hvaða aðferðum á að beita í þeim efnum? Sú aðferð sem við leggjum til, þingmenn Alþb., og 1. flm., hv. þm. Svavar Gestsson, hefur gert hér ítarlega grein fyrir, er að dómsmrh. hafi tillögurétt og hann sé eini aðilinn sem hafi tillögurétt. Enginn annar hafi tillögurétt en þingið verði að staðfesta tilnefninguna án umræðu. Þar með teljum við að það sé tryggt að ekki hefjist pólitísk umræða um veitinguna sem slíka en dómsmrh. veit þá af því að hann verður að velja mennina með þeim hætti að þeir hljóti staðfestingu á Alþingi.
    Ég gæti farið nokkuð ítarlega út í það hvernig ég tel að núv. hæstv. dómsmrh. hafi ekki í eitt einasta sinn af þeim þremur sem hann veitti hæstaréttardómaraembætti, valið þann einstakling sem tvímælalaust hafði mestar faglegar og starfslegar kröfur. En ég ætla ekki að gera það vegna þess að málið er mér af fjölskylduástæðum of nátengt. En ef það hefði ekki verið svo nátengt þá hefði ég beitt mér fyrir mjög harkalegri umræðu í garð hæstv. dómsmrh., hvernig hann í þrígang gengur fram hjá þeirri konu sem mesta og besta starfsreynslu hafði í íslenskri dómarastétt meðal umsækjenda. Það var ekki aðeins verið að ganga fram hjá einstaklingi með mesta starfsreynslu þeirra sem sóttu um, heldur líka þeirri konu úr íslenskri lögfræðistétt sem mesta starfsreynslu hafði. Og í það skipti, sem ég hef hér gert að umtalsefni, er valinn maður sem hafði aðstoðað ráðherrann í pólitískum slag innan Sjálfstfl.
    Ég tel þess vegna óheppilegt að þessi skipan sé áfram við lýði.
    Við vitum það líka að meðan sú skipan er við lýði þá er líklegt að dómsmálaráðherrar, úr hvaða flokki sem þeir kunna að vera, geti lent í því að þrýstingur sé á þá lagður af stuðningsmönnum eða flokksmönnum og þeir eigi kannski erfitt um vik að víkja sér undan slíkum pólitískum þrýstingi. Það getur líka komið upp sú staða að maður sé skipaður dómsmrh. í skamma hríð. Hann hafi átt í nánu samstarfi við einstakling og sé honum skuldbundinn með margvíslegum hætti. Viðkomandi einstaklingur hafi hins vegar ekki þá hæfni sem þarf til að gegna stöðu hæstaréttardómara en núverandi skipan er hins vegar þannig að ráðherrann getur sett slíkan einstakling í réttinn. Það er ekkert sem stoppar núverandi ráðherra að setja slíkan einstakling í réttinn. Og án þess að ég ætli að rekja það hér þá er hægt að nefna tilvik úr sögu síðari ára þar sem slíkt hefði hugsanlega getað komið upp og þá á ég ekki við núv. hæstv. dómsmrh. Þess vegna

held ég að það sé vörn í því fyrir dómsmrh., hver svo sem hann er, að geta vísað í það að hann þurfi að vera viss um það að viðkomandi einstaklingur njóti trúnaðar og trausts meiri hluta Alþingis.
    Ég held líka að reynslan af kosningu umboðsmanns hér á Alþingi sýni það að þingið er fullkomlega fært að takast á við slíka kosningu án þess að flokkspólitísk sjónarmið komi þar fram. Það er mjög dýrmætt. Áður en kosningin um umboðsmann Alþingis hafði farið fram hér á Alþingi þá hefði verið hægt að halda því fram að hæpið væri að þingið gæti hafið sig upp yfir þrönga flokkslega hagsmuni í slíkri kosningu. Reynslan sýnir þó að þingið getur það og hefur í tvígang, ef ég man rétt, kosið í embætti umboðsmanns með þeim hætti.
    Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið til þess að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Ég þakka fyrir það að tekið var tillit til þess að ég gat ekki verið viðstaddur, af þeim ástæðum sem ég greindi frá í upphafi, þegar umræðan fór fram í síðustu viku. Von okkar er sú að þetta frv. fái alvarlega athugun í hv. nefnd og við skoðum það í sameiningu hvort ekki getur náðst víðtæk samstaða um að breyta skipan Hæstaréttar á þann veg að tryggt sé að þeir einstaklingar sem í réttinn veljast séu að víðtækri yfirsýn tvímælalaust hæfastir þeirra sem um embættin hafa sótt.