Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:47:46 (1820)


[14:47]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki svo miklu við það að bæta sem fram hefur komið í umræðunni af hálfu þeirra sem tala fyrir málinu. Það hefur verið gert skilmerkilega og skýrt. En það sem veldur því að ég sé mig knúinn til að taka til máls er óvenjulágkúrleg ræða hæstv. dómsmrh. áðan. Ég tel að hæstv. ráðherra hefði verið betur komið ef hann hefði látið þá ræðu óflutta, því það kom alveg skýrt og greinilega fram hjá þeim sem hann beindi máli sínu gegn, að hann taldi sig ekki í stakk búinn að ræða þetta mál og tilgreindi sjálfur nákvæmlega ástæðu hvers vegna hann hafi ekki haft afskipti af málinu.
    Mér fannst að hæstv. ráðherra væri hér að reisa um of hátt til höggs í þessu efni og raunar styrkja þær grunsemdir, sem uppi hafa verið nokkuð lengi í röðum pólitískra andstæðinga Sjálfstfl., um hvernig Sjálfstfl. færi með veitingavaldið í þessum efnum. Ég ætla ekki að halda neinu fram um það efni að óathuguðu máli, en ég ljóstra engu upp þó ég láti það vitnast að það hefur oft verið sagt í mín eyru af hálfu manna sem telja sig a.m.k. sjálfir þekkja til að Sjálfstfl. færi ekki með þetta veitingavald eins og skyldi. Ef hæstv. ráðherra ætlar að vera með ræðuhöld af þessu tagi eins og hér áðan þá held ég að hann hljóti óhjákvæmilega að vekja upp mjög snarpa umræðu á þessu málefnasviði og ég er ekkert viss um að það yrði um of hollt fyrir hann, Sjálfstfl. eða dómskerfið í heild.