Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:50:09 (1821)


[14:50]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu um málefni Hæstaréttar og ég ætla ekki að taka neina efnislega afstöðu til þessa frv. sem hér liggur frammi. Það sem ég vil hafa mitt innlegg í þessa umræðu er það að ég er þeirrar skoðunar að almennt beri Íslendingar þá virðingu fyrir Hæstarétti, að þeir geri kröfu til þess að umræða um Hæstarétt sé á öðru plani en hún hefur verið hér í dag þegar Alþingi Íslendinga tekur sér fyrir hendur að fjalla um æðsta dómstól okkar Íslendinga. Þar undanskil ég enga, hvorki ráðherra né aðra sem hafa tekið þátt í þessari umræðu í dag.
    Ég er þeirrar skoðunar að almennt beri Íslendingar mikið traust til Hæstarétts Íslendinga og að öll umræða hér á Alþingi um þetta æðsta stig dómsvaldsins eigi að vera á þeim nótum að það sé ekki á nokkurn hátt reynt að grafa undan því trausti. Og mér finnst það vægast sagt afar sérkennilegt þegar bæði þingmenn og hæstv. ráðherra eru að draga inn í þá umræðu nöfn einstakra umsækjenda og nöfn einstakra dómara.
    Ég flutti hér mál ekki alls fyrir löngu sem var tengt einu af grundvallaratriðum okkar stjórnskipulags, fjallaði um kjördæmamál. Þá stigu þingmenn Alþb. hver á fætur öðrum í pontu og gagnrýndu það harðlega að þetta mál skyldi yfir höfuð vera flutt því þetta væri málaflokkur sem væri þess eðlis að ef það væri fjallað um það hér á Alþingi þá ætti það að vera á vettvangi forustumanna stjórnarflokkanna og á almennum nótum þar sem allir kæmu að. Þeir höfðu meira að segja uppi heitstrengingar um að það mál skyldi aldrei fá neina afgreiðslu hér á þingi. Einhvern veginn finnst mér að það sama ætti að gilda um umfjöllun hér um Hæstarétt Íslendinga ef menn vilja halda þessu sjónarmiði á lofti, að þegar Alþingi þarf að fjalla um Hæstarétt Íslendinga þá sé það gert á öðrum nótum heldur en hér hefur farið fram í dag.