Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 14:55:29 (1825)


[14:55]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Hæstv. forseti. Eftir stendur það að hæstv. dómsmrh. hefur ekki talað um efni frv. Það er dálítið merkilegt að það hafa farið fram umræður um þetta mál núna á tveimur fundum hér í þessari virðulegu stofnun. Þátttakendur í henni hafa verið fulltrúar úr einum fjórum stjórnmálaflokkum og menn hafa út af fyrir sig lagt eitt og annað til málanna og ráðherrann getur auðvitað haft mismunandi skoðanir á því hvað það er sem menn voru að segja. Ráðherrann hefur verið viðstaddur þessa umræðu en hann hefur ekki lagt orð inn í umræðuna um efni frv. heldur kaus hann að veitast að einum tilteknum þingmanni, hv. 8. þm. Reykn., með svo lágkúrulegum hætti að það jaðrar við þingmet og er þá langt til jafnað. Að halda því fram að þetta frv. sé flutt fyrst og fremst til þess að hefna harma mágkonu formanns Alþb. er náttúrlega svo fyrir neðan allar hellur af dómsmrh., sem er kallaður og er hæstv. hér í þessum sal, að það tekur engu tali. Það tekur engu tali.
    Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að gera sér grein fyrir því að ef einhvers staðar hefur birst sönnun fyrir nauðsyn þessa frv. og að það verði að lögum þá er það einmitt þetta innskot hæstv. ráðherra hér áðan. Ræða hans áðan er besta röksemdin sem flutt hefur verið á Alþingi Íslendinga fyrir því að þetta frv. þarf að samþykkja og ég er honum þakklátur fyrir það. Vegna þess að ef hæstv. dómsmrh. umgengst umsækjendur um embætti hæstaréttardómara eftir tengslum eða mægðum eða flokksskírteinum, þó hann geri ekki nema svo mikið sem rétt muna eftir einhverju af þessu, þá er það veitingavald í hættu statt. Þá staðfestir það einfaldlega að það þarf að koma því veitingavaldi öðru vísi fyrir. Og ég er alveg viss um að fyrir utan þau köst sem hæstv. dómsmrh. fær af og til þegar hann kemur í ræðustól þá er hann réttsýnn og sanngjarn maður og viðurkennir það alveg örugglega að það er skynsamlegt að koma þessum hlutum öðru vísi fyrir þar sem betri friður getur tekist um málin heldur en nú er kostur á miðað við þá skipan sem uppi er.
    Nú er það auk þess ekki svo að nafn Auðar Þorbergsdóttur dómara hafi verið borið hér inn í þessa umræðu af hv. 8. þm. Reykn. Hér var á síðasta fundi, þegar málið var rætt af hv. 10. þm. Reykv., mjög rækilega gagnrýnt að gengið hefði verið fram hjá Auði Þorbergsdóttur. Það vill hins vegar þannig til að þessi hv. 10. þm. Reykv. er ekki mægður eða tengdur Auði Þorbergsdóttur og þess vegna útilokað að koma höggi á hana með svipuðum hætti og gerð er tilraun til með hv. 8. þm. Reykn. hér áðan. Þess vegna tel ég að ráðherrann hafi gripið tækifærið þegar hv. 8. þm. Reykn. blandaði sér í umræðuna með þeim hætti sem hann gerði áðan og ég tel að þetta sé ósmekklegt og ósanngjarnt.
    Það er hins vegar út af fyrir sig alveg rétt sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan að það þarf auðvitað að reyna að stuðla að því eins og kostur er að umræða um Hæstarétt eins og önnur mál fari fram á sæmilega virðulegu og málefnalegu plani hér í þessari stofnun. Það má hins vegar ekki verða til þess að menn þori ekki að ræða málin, að menn ætli að vera svo virðulegir að þeir tali helst bara latínu hér, og helst ekki latínu heldur munkalatínu sem enginn skilur. Menn verða auðvitað að temja sér að tala um hlutina eins og þeir eru. Og hvernig eru þeir? Þeir eru þannig að dómsmálaráðherrarnir ráða því hverjir verða hæstaréttardómarar. Reynslan sýnir að þeim eru mislagðar hendur í þeim efnum. Reynslan sýnir að mjög sjaldan hefur tekist að skipa hæstaréttardómara þannig að um það hafi tekist algjör friður, þannig að um það hafi tekist samkomulag með þeim hætti að t.d. allir aðrir dómarar í landinu og lögfræðingar og Lagastofnun Háskólans segi sem svo: ,,Þarna var rétt valið.`` Þvert á móti hefur það nánast alltaf verið þannig

að niðurstaðan hefur verið umdeild. Nánast alltaf. Og það er þetta fen sem við alþýðubandalagsmenn viljum forðast með því að Alþingi þurfi að staðfesta þá tillögu sem dómsmrh. kann að gera til forseta Íslands um skipan hæstaréttardómara. Það erum þess vegna við sem erum að reyna að draga þessi vinnubrögð upp á annað plan, reyna að halda þessum málum upp úr skítnum ef menn vilja orða það með þeim hætti. Vegna þess m.a. að dæmin bara af núverandi hæstaréttardómum eru með þeim hætti að menn rekur í rogastans. Ég bið hv. þm. að horfa á myndirnar úr Hæstarétti sem birtast í sjónvarpinu. Það er auðvitað alveg augljóst mál að þar er Sjálfstfl. og þeir sem þar hafa verið mönnum þóknanlegir í yfirgnæfandi meiri hluta. Og það hefur ekkert með það að gera hvort þessir menn hafi einhvern tímann í bernsku leikið sér með hinum Heimdellingunum á stuttum buxum. Málið snýr einfaldlega þannig að þessir aðilar hafa verið virkir í flokksstarfi Sjálfstfl. alveg fram undir það síðasta og orðið að henda sér út úr bæjarstjórnum eða öðrum trúnaðarstöðum Sjálfstfl. til þess að sleppa inn í Hæstarétt um það leyti sem þeir voru að fá þar embætti. Þannig að þetta eru ekki menn sem höfðu fyrir mörgum árum eða áratugum skilið við Sjálfstæðisflokkinn sinn, með stórum staf og greini. Ónei. Þessir menn höfðu flestir verið í trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstfl. um árabil og hafa jafnvel eftir að þeir hafa orðið hæstaréttardómarar gengið fram í pólitískum verkum með þeirri ríkisstjórn sem Sjálfstfl. hefur haft forustu fyrir. Þetta er ómögulegt kerfi. Og þegar það svo allt í einu gerist að kratar sleppa þarna inn í eitt ár eða svo, þrettán mánuði held ég að það hafi verið, hvað gerist þá? Losnar embætti hæstaréttardómara. Hver verður hæstaréttardómari? Eini nafnkunni kratinn í dómarastétt. Sjálfsagt ágætur maður, ég veit ekkert um það og ég vona að hann sé það. En þetta er skrýtið. Þetta er athyglisvert svo ekki sé meira sagt. Og það er þetta sem á ekki að vera svona. Við eigum að taka allt öðru vísi á þessum hlutum.
    Fyrir nokkru skrifaði Pétur Þorsteinsson, sem lengi gegndi embætti sýslumanns Dalamanna, grein í blað --- Pétur er nú nýlega látinn --- hann sagði frá því að það hafði maður komið að máli við hann og sagt við hann: ,,Þú ættir að sækja um sýslumannsembættið í Dalasýslu, Pétur. Þú ert alveg rétti maðurinn í það að sækja um sýslumannsembættið í Dalasýslu.`` Og Pétur sagði: Nei, ég hugsa að ég geri það ekki.`` --- ,,Af hverju ekki?`` ,,Ja, ég hef nú aldrei verið neitt sérstaklega mikið í Framsóknarflokknum.`` --- En þá vildi svo til að það var framsóknarmaður dóms- og kirkjumálaráðherra. Þetta svar Péturs var í raun og veru algjörlega rökrétt miðað við aðstæður, algjörlega rökrétt eins og aðstæðurnar voru yfirleitt þegar var verið að veita sýslumannsembætti.
    Hugsið þið um, hv. þm., sýslumannsembættin hér í kringum landið. Það var raðað inn í þetta mönnum frá íhaldinu eða framsókn eftir því hvor þeirra hafði dómsmrn., þannig var það.
    Rennum huganum yfir landið allt. Minnumst þess t.d. þegar báðir varaþingmenn Sjálfstfl. af Vesturlandi voru sýslumenn. Þetta var svona um áratuga skeið og við erum að gera tillögur um að rífa okkur út úr þessu fari vegna þess að við erum öll sammála um að þetta far er óeðlilegt.
    Við samþykktum hér í fyrra ný stjórnsýslulög. Við erum að temja okkur ný vinnubrögð í sambandi við meðferð fjárlaga, meðferð ríkisreiknings o.s.frv. Við eigum þess vegna ekki að leggja þann kross á dómsmrh., sem vill annast sitt starf með heiðarlegum hætti, að hann geti legið undir ámæli fyrir að hann hafi tekið mann út á flokksskírteini eða eitthvað annað þaðan af verra inn í embætti hæstaréttardómara. Þess vegna er það þannig, virðulegi forseti, að þetta frv. er flutt af fullri alvöru með hliðsjón af þeirri breytingu sem þarf að eiga sér stað hér í öllu stjórnkerfinu eins og það leggur sig. Við höfum verið að vinna að því smátt og smátt á undanförnum árum og það er í raun og veru þannig að það er ótrulega mikil og byltingarkennd, jákvæð breyting sem hefur orðið hér á stjórnkerfinu ef við lítum hér 10--15 ár aftur í tímann. Það er lygileg breyting. Þetta er að þróast hægt og hægt.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum líka flutt frv. um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála þar sem gert er ráð fyrir því að ríkissaksóknari verði skipaður til takmarkaðs tíma í senn. Og við erum með í huga fleiri breytingartillögur við réttarkerfið og dómskerfið í landinu. Það er ekki vegna þess að okkur sé illa við það fólk sem þarna er að vinna heldur er það vegna þess að við viljum að þetta kerfi njóti trausts frá upphafi til enda. Frá því að viðkomandi fær embættið og þangað til hann fer að gegna því og þangað til hann lætur af því og nýir menn taka við. Við viljum að dóms- og réttarkerfið njóti trausts í þessu landi og ég bendi á að um það eru skiptar skoðanir. Það á að vera hlutverk dómsmálaráðherrans, hver svo sem hann er, að leita allra leiða til þess að eyða ágreiningi um mál af þessu tagi.
    Þess vegna er það svo, virðulegur forseti, að ég skora á hv. allshn. að taka það frv. sem hér liggur fyrir til vandaðrar skoðunar ásamt því frv. sem hæstv. ráðherra hefur flutt, sem er að mörgu leyti mjög athyglisvert, tel ég vera, og að þessi mál fái að verða samhliða. Sömuleiðis frv. um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, þannig að við höldum áfram því umbótastarfi sem unnið hefur verið í dóms- og réttarkerfinu á undanförnum árum, m.a. af hæstv. núv. dómsmrh. sem að mörgu leyti hefur haldið mjög myndarlega á þeim málum hér gagnvart þinginu. Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það, síst geri ég það. En um ræðu hæstv. ráðherra hér áðan ætla ég ekki að hafa nein önnur orð en þau að ,,það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann``. Slíkt kemur fyrir mann og mann af og til. En það er ekki þar með sagt að það gerist aftur og aftur síðar og ég skora á hæstv. ráðherra að taka þátt í þessari umræðu með málefnalegum og alvarlegum hætti vegna þess að þetta frv. er flutt af fullri einlægni og alvöru.