Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:20:58 (1830)


[15:20]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það eru auðvitað útúrsnúningar í hæsta máta þegar hv. 8. þm. Reykn. kemur upp og fer að blanda inn í þessa umræðu deilum hans og annarra um skipun manna í Tryggingastofnun ríkisins og önnur embætti. Þessi umfjöllun hefur ekkert fjallað um það og hér hefur ekki staðið nein umræða um þau efni og því síður hef ég eða nokkur annar komið hér til þess að fjalla um þau efni eða flytja varnarræður fyrir þau efni. Það eru útúrsnúningar manns sem finnur og veit að hann er á hálum ís með þann málflutning sem hann hefur haft í frammi í þessari umræðu. Ég hef lýst málefnalegum rökum fyrir því að ég tel þær tillögur sem eru í frv. varhugaverðar. Ég hef lýst með rökum sjónarmiðum varðandi breytingar sem megi gera á formi veitingavaldsins til þess að veita aðhald að aukinni málefnalegri umfjöllun áður en menn eru skipaðir í embætti og ég hef lýst því að ég telji að það megi betur koma þeirri ábyrgð við með slíkum hætti en með því að vísa öllu í eitthvert pólitískt bögglauppboð þegar á að fara að skipa dómara í Hæstarétt. Ég stend við þá skoðun og hún gefur ekkert tilefni til ásakana af því tagi sem hv. 8. þm. Reykn. var með.