Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:22:17 (1831)


[15:22]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú jákvætt að hæstv. dómsmrh. finnur það að hann er kominn í dálítið vondan félagsskap ef málflutningur hans áðan lýsir hans raunverulegu afstöðu. Ástæðan fyrir því að ég dró þessar almennu ályktanir var að hæstv. dómsmrh. fór að tala um Háskóla Íslands. Hver hefur verið að tala um Háskóla Íslands í þessari umræðu fram að þessu? Mér vitanlega ekki nokkur maður. Það er hæstv.

dómsmrh. sem breytir þessari umræðu frá því að vera umræða um Hæstarétt eingöngu og dómskerfið í landinu yfir í það að fara að ræða almenna skipan á veitingu embætta og flytur sérstakan pistil um Háskóla Íslands og meira að segja dregur ályktun, kemst að niðurstöðu, og niðurstaða hans er sú að kerfið þegar ráðherrann réð einn hverjir voru valdir til kennslustarfa í Háskóla Íslands hafi verið betra kerfi heldur en sú nýskipan sem komið var á í tíð hv. þm. Svavars Gestssonar sem menntmrh. í góðri samvinnu við Háskóla Íslands að það væri sjálfstæði háskólans fyrir bestu að hann tryggði með ákvörðun sinni að fagleg sjónarmið réðu þar. Ég hef þá misskilið hæstv. ráðherra eitthvað í hans ræðu ef það má ekki draga þá ályktun og þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum fór hann að tala um Háskóla Íslands? Hver var ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra taldi nauðsynlegt að fara að fordæma þá nýskipan að háskólinn ráði þessum málum sjálfur? Það mátti ráða það af ræðu hans að hann vildi koma á þeirri skipan að dómskerfið réði kannski sjálft með hæfnisnefndum og umsagnarnefndum hverjir væru valdir til starfa í dómskerfinu. Það má alveg ræða þá hugmynd. Hún á fullan rétt á sér og það er visst fagnaðarefni að hún komi hér fram. En að fara þá í leiðinni að fordæma kerfið þegar háskólinn býr við þá skipan að ráða sjálfur sínum embættum, leiðir einfaldlega til þess að maður dragi þá ályktun að ráðherrann vilji vera í vörn fyrir þetta gamla herfangskerfi stjórnmálaflokkanna.