Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:50:50 (1841)


[15:50]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hef marglýst því yfir í þessari umræðu að ég tel að málefnalegt sjónarmið eigi að liggja til grundvallar lögum samkvæmt og efnislega. Ég hef líka lýst því yfir að ég tel að í mörgum tilvikum og þar á meðal varðandi skipun hæstaréttardómara sé ástæða til þess að huga að því að styrkja þær forsendur sem liggja til málefnalegrar niðurstöðu í þessu efni. Við höfum víða aðhald í kerfinu í dag en

það má víða gera betur.
    Ég nefni hér enn á ný jafnréttislögin og umsagnir og ályktanir Jafnréttisráðs sem veita ráðherrum vissulega aðhald til þess að gæta að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem kveðið er á um í jafnréttislögum og það veit ég að hv. 9. þm. Reykv. þekkir af góðri reynslu því að ég hygg að fáir einstakir ráðherrar hafi fengið fleiri athugasemdir frá Jafnréttisráði á ráðherraferli sínum en einmitt hann þannig að ég hygg að hann þekki það af eigin reynslu að þarna er um að ræða lagafyrirmæli og sérstaka stofnun sem veitir ráðherrum aðhald. Ég tel að það sé af hinu góða og hef marglýst því yfir að það má gera betur í þessu efni og ég vonast satt best að segja til þess að þessi umræða leiði til þeirrar niðurstöðu að menn hugi að því á þessu sviði og vonandi fleirum í stjórnsýslunni.