Þjóðfáni Íslendinga

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 10:33:08 (1844)

[10:33]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt hér fyrir till. til þál. um endurskoðun laga nr. 34 frá 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga. Meðflm. minn á þessari þáltill. er Árni R. Árnason. Hún hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa fimm manna nefnd til að endurskoða lög nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga, einkum ákvæði 12. gr.``
    Í greinargerð segir:
    ,,Í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 34/1944 er þess sérstaklega getið að óheimilt sé að nota þjóðfána Íslendinga á umbúðir eða í auglýsingar á vörum.
    Flutningsmenn telja að ákvæði þetta eigi ekki lengur við nein rök að styðjast og að gæðavörur íslenskrar framleiðslu, sem til útflutnings séu ætlaðar, geti og eigi að bera glögg einkenni Íslands. Því eigi ekkert að vera því til fyrirstöðu að heimilt verði að nota íslenska þjóðfánann t.d. á umbúðir varnings sem framleiddur er hér á landi, enda gæti slík merking haft áhrif til landkynningar.
    Flutningsmenn telja það í hæsta máta eðlilegt og við hæfi að t.d. bæklingar til kynningar á landi og þjóð og til upplýsingar fyrir ferðamenn séu áprentaðir með íslenska þjóðfánanum.
    Með tilvísun til þess sem að framan greinir þykir flutningsmönnum rétt að benda á að m.a. ættu

fulltrúar útflutningsráðs og ferðamála að eiga aðild að væntanlegri nefndarskipun.``
    Í lögum um þjóðfána Íslendinga segir m.a. í 2. gr.:
    ,,Ríkisstjórn, Alþingi og aðrar opinberar stofnanir svo og fulltrúar utanrrn. Íslands erlendis skulu nota þjóðfánann klofinn að framan: tjúgufána.``
    Og í 5. gr.: ,,Tjúgufánann má aðeins nota á húsum og við hús, sem notuð eru að öllu eða mestu leyti í þágu ríkis eða ríkisstofnana, nema um sé að ræða heimili eða embættisskrifstofu fulltrúa utanrrn. Íslands erlendis. Þótt hús sé eign ríkis eða ríkisstofnana, má ekki nota tjúgufánann á því, ef leigt er að mestu eða öllu einstökum mönnum eða einkastofnunum. Hins vegar má nota tjúgufánann á húsi, sem er í eign einstakra manna eða einkastofnana, ef ríkið eða ríkisstofnanir hafa húsið á leigu og nota það að öllu eða mestu leyti til sinna þarfa.``
    Í 12. gr. segir: ,,Enginn má óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki. . . .
    Óheimilt er að nota fánann í firmamerki, vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru.
    Nú hefur verið skrásett af misgáningi vörumerki, þar sem notaður er þjóðfáninn án heimildar, og skal þá afmá það úr vörumerkjaskrá samkvæmt kröfu dómsmrn.
    Nú setur maður þjóðfánann á söluvarning eða umbúðir hans, og skal þá fenginn dómsúrskurður um, að honum sé óheimilt að nota fánamerkið eða hafa vörur til sölu, sem auðkenndar eru með því. Auk þess má skylda hann til þess, ef nauðsyn krefur, að ónýta vörurnar eða umbúðir þeirra, svo framarlega sem þær eru þá í vörslum hans eða hann á annan hátt hefur umráð yfir þeim.``
    Í 13. gr. segir: ,,Dómsmrn. getur, ef þörf þykir, sett með reglugerð sérstök ákvæði til skýringar ákvæðum laga þessara.``
    Forsrn. gaf út bókakilju um fána Íslands árið 1991, hið vandaðasta rit. Með leyfi forseta, stendur á bls. 41 m.a. um fullveldisfánann:
    ,,Á hádegi sunnudaginn 1. des. 1918 var klofinn fáni dreginn að hún á fánastöng Stjórnarráðshússins er sambandslögin gengu í gildi. Sigurður Eggerz fjmrh., er gegni störfum forsrh. í fjarveru Jóns Magnússonar í Kaupmannahöfn, flutti ræðu af þrepum Stjórnarráðshússins og sagði m.a.: ,,Og í gær hefur konungurinn gefið út úrskurð um þjóðfána Íslands sem blaktir frá því í dag yfir hinu íslenska ríki. Fáninn er tákn fullveldis vors. . . .  Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna sem þjóð vor á fegurstar, hvert stórverk sem unnið er af oss eykur veg fánans hvort sem það er unnið á höfnum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vísindum og í fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er, þess göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar. Vér biðjum alföður að styrkja oss til þess að lyfta fánanum til frægðar og frama.````
    Sigurður Eggerz hafði hér lög að mæla. Að lyfta íslenska þjóðfánanum til vegs og virðingar, frægðar og frama. En höfum við staðið þannig að verki? Nei. Íslenski fáninn er ekki innan dyra t.d. hér á hinu háa Alþingi og ber hvergi fyrir glöggt gests auga þeirra er skoða innviði þessa húss, hvað þá með aðrar ríkisstofnanir og opinberar stofnanir, kirkjur og skóla. Nei, það er ekki von að svo sé hvað varðar ríkisstofnanir, því að samkvæmt 5. gr. má aðeins nota tjúgufánann á húsum og við hús, utan húss.
    12. gr. laganna, hvar getið er um að enginn megi óvirða þjóðfánann, hefur orðið þess valdandi að virðing við þjóðfánann hefur snúist upp í andhverfu sína. Þjóðfáninn er vanvirtur með allt of lítilli notkun.
    Það er athyglisvert, virðulegi forseti, þegar lesið er upp úr lögum um íslenska þjóðfánann, hvar fastlega er tekið á því að óheimilt sé að nota fánann í firmamerki, vörumerki eða á söluvarning, þá er það nú svo að m.a. í byggingu Sameinuðu þjóðanna er hægt að fá keypt póstkort með íslenska fánanum á. Lögum samkvæmt er þetta óheimilt vegna þess að þetta er söluvarningur. Það eru til fleiri dæmi þar um. Tilgangur okkar flm. með þessari þáltill., virðulegi forseti, er fyrst og fremst sá að hefja fánann til vegs og virðingar, hefja fánann til landkynningar og gera honum svo hátt undir höfði sem þessi glæsilegi fáni íslensku þjóðarinnar á vissulega skilið.