Þjóðfáni Íslendinga

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 10:43:10 (1846)


[10:43]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga þó að forsrh. skipi einhverja menn í nefnd til að endurskoða fánalögin. Ég veit ekki hvort það á sérstaklega við um ákvæði 12. gr. og er í dálitlum vafa þar um. Ég er sammála þeim sem hér hafa talað á undan mér að ég tel að við Íslendingar séum tæplega nógu fánaglaðir, við ættum að flagga oftar heldur en við gerum. En öllu má nú ofgera.
    Ég kann ákaflega vel við þann sið að fáninn blakti hér yfir Alþingishúsinu meðan fundir standa. Útvarpsstjóri var vanur fánaburði frá sínum fyrra starfi á Þingvöllum. Hann lét flagga þegar útvarpsráð kom saman. Af því varð mikill hvellur. Ég sá ekkert á móti því að flaggað væri þegar útvarpsráð kom saman og ég held að við ættum að vera duglegri að flagga á hátíðum og einnig á tyllidögum.
    Ég er hins vegar ekki sannfærður um að það sé skref til bóta að fara að hafa umbúðir eða auglýsingar á vörum í fánalitunum. Ég ætla að biðja menn að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir taka það skref og ég tel að ýmis lönd í kringum okkur ofnoti fánann og á ég þar kannski fyrst og fremst við Bandaríkin og jafnvel Danmörku. Norðmenn hafa nokkuð aðra umgengni við fánann en þeir eru miklu viljugri að flagga heldur en Íslendingar og ég tel að það sé til fyrirmyndar.
    Ég vil sem sagt lýsa þeirri skoðun minni hér að fánann megi ekki misnota. Menn eiga að nota fánann til augnayndis, ánægju og til að skapa hátíðarstemningu, en ekki sem auglýsingu á söluvöru, að mínum dómi.