Þjóðfáni Íslendinga

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 10:58:57 (1851)


[10:58]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hér hafa tekið til máls og rætt um þessa þáltill. og þeirra jákvæðni í garð tillögunnar. Jafnframt skil ég mætavel orðatiltæki þeirra um varlega notkun. Ég bendi á, með leyfi virðulegi forseti, þennan söluvarning, sem lögum samkvæmt er ekki heimill. Ég bendi á það átak sem íslenskur iðnaður er að gera í dag og heitir ,,Atvinna til frambúðar``. Það er athyglisvert að horfa á þetta merki. Þetta er keila sem á uppruna sinn erlendis frá og hún er umvafin borða íslensku fánalitanna. Lögum samkvæmt mega þeir ekki nota íslenska fánann sem þó væri eðlilegt og sjálfsagt.
    Menn segja: Við skulum fara varlega með íslenska þjóðfánann. Ég er alveg sammála því. En, virðulegi forseti, hvað er þetta hér? ( Gripið fram í: Regnhlíf.) Þetta er regnhlíf og með íslenska fánanum. Hvaða löggjafi á Íslandi ætlar að banna þeim erlendu aðilum sem nota íslenska fánann sem söluvarning erlendis ( Gripið fram í: Íslensk lög gilda bara á Íslandi.) Lög gilda bara um Ísland. Það vill svo einkennilega til, hv. þm., að þessi regnhlíf er gefin út og framleidd undir eftirliti Norðurlandaráðs og gefinn Norðurlandafulltrúum til að skýla sér fyrir regni og vindi. Þetta er virðingin við íslenska fánann. Og menn skulu fara varlega með. Nei, virðulegi forseti. Ég veit það líka að þeir sem horfa nú t.d. á sjónvarpsstöðina Sýn, þeim þykir hann ákaflega grár og hversdagslegur bakgrunnurinn sem er við virðulegan forseta. Hvers vegna ætti íslenski fáninn ekki að vera þarna á stöng? Hvers vegna er íslenski þjóðfáninn ekki hér innan dyra? Hvers vegna er hann ekki í almennum ríkisstofnunum? Hvers vegna er hann ekki í skólum landsins? Hver á að bera virðingu fyrir fánanum þegar hann má helst aldrei sjást?
    Við skulum auðvitað fara varlega með íslenska fánann, ég tek alveg undir það. En við skulum ekki fara svo varlega með íslenska fánann að hann sé vanvirtur. Þess vegna, virðulegi forseti, leggjum við flm. þessa tillögu fram. Og það er rétt, eins og kom hér fram áðan hjá hv. 9. þm. Reykv., að það er full ástæða til þess að endurskoða þau lög sem nú eru að verða fimmtíu ára og skoða þau með hliðsjón af því sem nútíminn segir okkur. Við eigum að vera ófeiminn að nota íslenska fánann landi og þjóð til framdráttar. Ég vildi að endingu, forseti, leggja til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og allshn.