Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 11:56:02 (1858)


[11:56]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú þykir mér Akranes orðið lítið og lágt og skrítnar sendingar sem þaðan berast inn í sali Alþingis.
    Þetta var ómerkilegur málflutningur sem styðst ekki við nein rök og auðvitað dæmalaust að alþingismaður skuli leyfa sér svona ómerkilegheit. Hann sagði að ég hefði verið málsvari hávaxtastefnu, þetta er mjög rangt. Ég hef verið málsvari þess að sparifé brynni ekki upp og að hér ríktu ákveðnir raunvextir. En ég hef alla tíð verið talsmaður þess að vextir væru lækkaðir eftir þeirri aðferð sem nú hefur verið valin. Ég var talsmaður þess í fyrri ríkisstjórn. Hvort sem það var Jón Sigurðsson eða annar sem stóð í vegi fyrir því eða skilningsleysi í mínum eigin flokki um að þetta væri aðferðin þá náðist það ekki fram. Ég hef barist gegn því að lífeyrissjóðirnir og stóreignamennirnir á Íslandi sætu við þau kjör sem þeir hafa gert. Ég er enginn hagsmunagæslumaður inni í Búnaðarbanka Íslands. Mér hefur verið falið það hlutverk að vera formaður þar nú í um fjögur ár. Ég tel mig þar hafa fyrst og fremst hugsað um afkomu þess fyrirtækis og verið baráttumaður fyrir því að fyrirtækin sem þar standa völtum fótum sum hver vegna stefnu ríkisstjórnarinnar sæju fram á vaxtalækkun.
    Þannig að þessi ómerkilegi málflutningur þessa hv. þm. fellur um sig sjálfan enda væri það rétt hjá nýliðum í þinginu að lesa sér til áður en þeir flytja slíkt bull úr ræðustól Alþingis, sem þennan mann

henti.