Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 11:58:38 (1860)


[11:58]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nei, ég er nú ekki sár yfir þessu. En hins vegar þá lætur maður ekkert troða á sér eða bera á sig rangar sakir án þess að bera af sér blak. Þannig að þetta snertir mig ekki á neinn hátt. Ég hygg að það sé bæði hv. alþingismönnum mörgum kunnugt svo og ýmsum öðrum hverjar mínar skoðanir hafa verið í þessum efnum og þær hafa ekkert breyst og komu hér fram í minni ræðu. Þó einhver krati í vondri pílagrímsferð sé nú að reyna að koma höggi á aðra þá truflar það nú ekki sálarró mína. En ég vænti þess að hann verði minntur á það á sínu ferðalagi að hann þykist vera að skila 10 milljörðum sem ríkisstjórn hans lagði á borgara þessa lands. Það eru kannski 10 milljarðar á ári eða getur hv. þm. upplýst mig um það yfir hvaða tímabil þessir 10 milljarðar ná sem þeir segjast nú vera að skila inn í heimilin og fyrirtækin í sinni pílagrímsför um landið?