Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:11:05 (1862)


[12:11]
    Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. 1. flm. fyrir þrautseigjuna og baráttustyrkinn sem hann sýnir í þessu máli og mætti það vera til eftirbreytni fyrir okkur hina. Þetta er í sjöunda sinn sem hv. þm. mælir fyrir þessu máli sem leiðir auðvitað hugann að því hvernig okkar nefndarstarfi yfir höfuð er varið. Ég tel að það sé íhugunarefni að mál skuli ekki fá að koma út úr nefndum þegar nægur tími gefst á annað borð til þess að fara yfir málin. Það er annað ef mál koma seint inn í nefndir og það gefst ekki tími til að fara yfir þau, en ef það er nægur tími þá er það auðvitað forkastanlegt að einhver níu manna nefnd taki völdin af hinum 54 þingmönnunum, að þessi eina níu manna nefnd móti afstöðu til málsins og ráði því hvort það fær framgang eða ekki. Það er mín skoðun að öll mál sem fá nægan tíma í nefnd eigi að

koma inn í þingsal og það er þingið og þingmennirnir hér, þeir 63 sem eiga að sitja í þessum sal, sem taka afstöðu til málsins. Ekki þessi níu manna nefnd. Það hlýtur að vera réttlætismál að þannig sé farið með þingmál. Ég vil benda á það sem stendur í 18. gr. þingskapa en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Forseti skal gera áætlun um afgreiðslu mála úr nefndum í samráði við formenn þeirra þannig að unnt sé að skipa málum niður á dagskrá þingsins í hagkvæmri tímaröð og dreifa þeim sem jafnast á þingtímann.``
    Þessu ákvæði tel ég að forseti og forsætisnefnd eigi að framfylgja. Hún á að ganga eftir því að þau mál sem koma tímanlega til nefnda, umsagnir hafa fengist um, og hefur verið fjallað um það, þau mál eiga skilyrðislaust að koma út úr nefnd, hvaða afstöðu sem nefndin hefur til málsins. Það skiptir engu máli. Það er þingið og þeir 63 þingmenn sem eru kjörnir á þing sem eiga að greiða atkvæði um málið, hvort það fær framgang eða ekki, hvort það er samþykkt eða ekki. Þannig tel ég að þetta eigi að vera. Og þetta mál sem við erum að ræða í dag það er auðvitað talandi dæmi um það hvernig þetta á ekki að vera.
    En ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál eins og ég hef margoft gert áður og alveg óþarfi að fara út í efnislega umræðu um það. Ég sé það þegar ég lít yfir meðflm. þessa frv. að það hljóti að vera mjög sterkar líkur fyrir því að það sé meiri hluti í efh.- og viðskn. fyrir málinu. Ég er yfirlýstur stuðningsmaður þessa máls og á sæti í þeirri nefnd, hér er einnig fulltrúi Kvennalistans, Kristín Ástgeirsdóttir, hún er meðflm. að málinu. Ef hugur fylgir máli hjá framsóknarmönnum og Alþb. þá er augljós meiri hluti fyrir málinu í nefnd og þá hlýtur málið loksins að komast þar út og hér inn í þingsali og verða greidd um það atkvæði. Aðra ályktun get ég ekki dregið af því sem ég hef heyrt hér í dag. Að vísu hef ég ekki heyrt í fulltrúum Alþb.
    Ég minnist þess á árinu 1988, þá svaraði þáv. hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, því til um hvenær mætti fella lánskjaravísitöluna niður að þegar verðbólgan væri komin undir 10% og hún stæði sex mánuði eða lengur þá ætti að fella niður lánskjaravísitöluna. Þau orð stóðu auðvitað ekki.
    En það var athyglisvert að heyra í hv. þm. Páli Péturssyni koma hér og lýsa yfir mikilli iðrun yfir því að hafa samþykkt Ólafslögin á sínum tíma sem vafalaust voru góð og gild á þeim tíma og lýsa jafnframt yfir stuðningi við þetta mál og vera jafnframt meðflm. að því. Þetta mál er búið að vera, eins og áður hefur komið fram, sjö sinnum hér og sjö sinnum farið inn til efh.- og viðskn. og á þeim árum, 1987--1991, þegar nefndin hét fjárhags- og viðskiptanefnd, þá var hv. þm. Páll Pétursson formaður þeirrar nefndar. Ég sat í þeirri nefnd og er búinn að sitja þar síðan 1987. Ég man ekki eftir neinum sérstökum áhuga hans á að afgreiða það mál þá. Núna allt í einu er geysileg iðrun yfir að hafa samþykkt Ólafslög og mikill stuðningur við þetta mál hér. Ég skil þetta ekki en að vísu fagna ég þessari breytingu á afstöðu þingmannsins til þessa máls. Ég hlýt þá að túlka það sem svo að framsóknarmennirnir í efh.- og viðskn. styðji málið. Ég skil það þannig og ég skil málflutning hv. þm. Guðna Ágústssonar á þann veg að þeir styðji málið og ég þykist vita það að hv. þm. Jóhannes Geir muni tjá sig um málið á eftir og það mun þá koma í ljós. Ef svo er að þeir fylgja formanni sínum sem er meðflm. að þessu máli þá er þessi meiri hluti kominn og ég fagna því að sjálfsögðu.
    Alþýðuflokksmaðurinn í nefndinni hlýtur eiginlega að samþykkja það líka, ég gat ekki heyrt betur á ráðherra flokksins hér áðan, hæstv. viðskrh., en að hann styddi þetta mál. Hann sagði að þetta væri mjög þarft mál. Eftir hverju erum við þá að bíða? Nefndin hlýtur að afgreiða málið út með einum eða öðrum hætti, kannski ekki óbreytt eins og það er á þskj. en eins og hv. þm. Matthías Bjarnason sagði þá er auðvitað aðalmálið að losna við lánskjaravísitöluna og það er ég viss um að hefur vakað fyrir hv. 1. flm. Eggert Haukdal allan tímann. Ekki það að hann vilji baða sig í ljósi einhvers sérstaks árangurs, hann vill bara ná árangri í málefninu. Þannig þekki ég hann.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson talaði um það að við hefðum kennt fólki að spara. Ég veit ekki hvaða fólk hv. þm. er að tala um því allur almenningur í landinu getur ekkert sparað. Hann hefur ekkert til þess að spara. Það eru auðvitað einhverjir örfáir fjármagnseigendur sem geta sparað en allur almenningur í landinu veit ekki hvað það er, hann er að berjast við að draga fram lífið. Hvernig á fólk að geta sparað við þær aðstæður sem hafa verið, við hátt vaxtastig, síhækkandi skatta, aukin þjónustugjöld, niðurskurð á hinum og þessum sviðum, kvótasviðum og hvar sem við lítum til? Fólk hefur ekki fjármagn til þess að spara og það er auðvitað kjarni málsins. Það sjá auðvitað bankamenn ef þeir líta á skuldastöðu heimilanna. Það sér allur almenningur. Skuldastaða heimilanna hefur snarversnað þannig að við erum ekkert að kenna neinu fólki að spara. Við erum að neyða fólk til þess að reyna að læra að draga fram líftóruna á þeim slæmu kjörum sem því er búið í landinu í dag.
    Hæstv. forseti. Ég vildi sem sagt láta þetta koma fram og ég fagna þessari hugarfarsbreytingu sem átt hefur sér stað hjá virðulegum þingmönnum Framsfl. og nú vona ég bara að þingmenn míns eigin flokks skipti líka um skoðun.