Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:18:57 (1863)


[12:18]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. Inga Björns Albertssonar um að ég hefði rætt um að verðtrygging og Ólafslög hefðu kennt fólki að spara, þá vil ég segja að auðvitað er sem betur fer allt önnur

staða ef menn skoða tölur hvað peningalegan sparnað varðar í landinu og það er enginn vafi í mínum huga að þær eru æðimargar fjölskyldurnar sem kannski af litlum efnum eiga sér bankabók og ég hygg að þær innstæður að stærstum hluta sem eru í bankakerfinu á Íslandi séu í eigu almennings. Sem betur fer. Þannig að þessi breytta staða á peningamarkaði sem kom með Ólafslögum hefur auðvitað gert það að verkum. Ég hef séð það t.d. í sambandi við fermingarbörn sem eru í viðskiptum við ákveðinn banka, ef menn skoða þau ár eftir ár, þá safna þau ótrúlegum sparnaði á tveimur til þremur árum. Þannig að margur sparar af litlum efnum en hitt er auðvitað stóra málið sem þingmaðurinn kom inn á, þjóðirnar eru tvær og eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún kom einnig inn á, auðvitað eru þjóðirnar tvær. Það eru þeir skuldugu og svo hinir og þeir skuldugu eiga mikla samúð hjá mér og ég hef talað fyrir því hér bæði gagnvart húsbréfum og gagnvart stöðu heimilanna að það er auðvitað verkefni sem ríkisvaldið verður að setjast yfir hvernig mörgu fólki sem nú er undir miðjum aldri verður bjargað frá þeim harmleik að missa eigur sínar fyrir næstu aldamót.