Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:24:31 (1866)


[12:24]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér aðeins vegna þess að leitað var eftir afstöðu Alþb. og hv. þm. Ingi Björn Albertsson spurði sérstaklega um hana. Ég vil vekja athygli hans á að tveir meðflm. hv. þm. Eggerts Haukdals á þessu frv. eru þingmenn Alþb., Jóhann Ársælsson og Kristinn H. Gunnarsson, og þó að fyrir því liggi ekki formleg samþykkt þingflokksins á þessu sérstaka þingmáli þá segir það auðvitað sína sögu um stuðning þingmanna Alþb. um þetta mál og einnig hefur þetta komið fram í umræðu áður þegar þetta mál hefur verið tekið upp á fyrri þingum. Þá hefur afstaða Alþb. eða einstakra þingmanna Alþb. legið fyrir.
    Virðulegi forseti. Það hefði verið ástæða til þess að koma hér upp með andsvar við ræðu hæstv. viðskrh. og stöðugt hnútukast hæstv. ráðherra í garð þingmannsins Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. fjmrh., en þau orð dæma sig sjálf og ekkert nýtt að hv. þm. Alþfl. tali eins og þeir hafi ekki komið nálægt síðustu ríkisstjórn og beri enga ábyrgð á þeim ákvörðunum sem þá voru teknar. Það er hins vegar öllu alvarlegra þegar hv. þingmenn Alþfl. eru að reyna að sverja af sér þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í núv. ríkisstjórn.