Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:26:16 (1867)


[12:26]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það var leitað eftir því hver yrði afstaða framsóknarmanna í efh.- og viðskn.

til þessa máls. Nú er svo að ég tala ekki nema fyrir sjálfan mig í því sambandi. Ég hefði svo sem getað látið þetta nægja og vitnað til fyrri ræðna sem ég hef haldið á þessu þingi um vaxtamál. Þar hefur mín afstaða legið alveg ljós fyrir.
    Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið tímabært fyrir nokkru að afnema lánskjaravísitöluna. Það hafi átt að gera í kjölfar þeirra ráðstafana sem gerðar voru 1990 af fyrrv. ríkisstjórn og í raun lögðu grunninn að því að ná niður verðbólgu hér á landi. En það er einhvern veginn þannig með núv. ríkisstjórn að ef hún hefur átt um tvo kosti að velja þá hefur hún yfirleitt alltaf valið þann lakari og svo var einnig í þessu að hún afnam ekki lánskjaravísitöluna og hefur ekki gert það enn. Menn veltu því fyrir sér hvers vegna var allt í einu hægt að lækka vextina núna. Hvers vegna í byrjun nóvember 1993? Hvers vegna ekki fyrr? Ég held að það sé einföld skýring á því. Hún er sú að núverandi ríkisstjórn var komin í þá stöðu að ef hún hefði ekkert gert í vaxtamálunum fyrir 11. nóv. sem voru þau tímamörk sem aðilar vinnumarkaðarins settu ríkisstjórninni til þess að lækka vextina, þá voru allri kjarasamningar lausir og eins og staðan var á stjórnarheimilinu um miðjan október þá er ég nánast viss um að ríkisstjórnin hefði ekki þolað það sem því hefði fylgt. Hún var sem sagt knúin til þess af aðilum vinnumarkaðarins að lækka vextina. Ég held að þeir háu herrar sem sitja í ríkisstjórninni hafi ekkert breytt um skoðun hvað það snertir, eins og þeir hafa alltaf talað á þessu kjörtímabili að það sé óskilgreindur hlutur sem heitir fjármagnsmarkaður sem ráði vöxtunum, enda hefur orka þeirra síðustu vikurnar farið mikið í það að sannfæra fólk um að þarna hafi verið um að ræða markaðsaðgerðir en ekki handaflsaðgerðir sem lækkuðu vextina núna. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þar hafi verið sambland af hvoru tveggja og reyndar er það sú peningastefna sem er framfylgt í okkar nágrannalöndum, að það er sambland af markaðsöflum sem ráða vöxtunum og hreinum stjórnvaldsaðgerðum af hálfu ríkisstjórna og seðlabanka. Öðruvísi er ekki hægt að stýra fjármagnsmarkaði að mínu mati.
    Það er svo aftur annað umhugsunarefni varðandi lánskjaravísitöluna að þegar náðist þjóðarsáttin 1990 um aðgerðir til að vinna bug á verðbólgu, þá voru fjármagnseigendur ekki tilbúnir til þess að gangast undir sömu hluti og launþegar. Launþegar voru þá tilbúnir og viðurkenndu að til lengri tíma litið þá skilaði sér ekki meira í launaumslögunum heldur en það sem atvinnuvegir okkar stæðu undir að borga. Menn geta síðan deilt um hvernig því er skipt, réttlátlega eða ranglátlega. Það nákvæmlega sama gildir um peningana, þeir ávaxta sig ekki hótinu meira en það sem atvinnuvegirnir standa undir á hverjum tíma. Og ef við skoðum það sem hefur verið að gerast á síðustu árum, þá er ótrúlega mikið samhengi annars vegar á milli þess sem menn segja að hafi verið tekið og segja réttilega að hafi verið tekið í ávöxtun fjármagns umfram það sem atvinnuvegir og heimili í raun þoldu og þess hvað skuldastaða atvinnuveganna og heimilanna hefur versnað á þessum tíma. Það er engin tilviljun að eigið fé undirstöðuatvinnugreinar okkar, sjávarútvegsins, hefur brunnið upp á sömu árum.
    Menn geta síðan farið í miklar kúnstir um það hverjum sé að kenna og hverjum ekki. Nú er svo að við þingmenn erum flestir á einhvern hátt spjallaðir á því að hafa tekið þátt í þessum leik á síðustu árum. Það er þá ekki nema Kvennalistinn sem í þessum málum eins og öðrum getur talað út frá því að hafa ekki komið að framkvæmdarvaldinu enn sem komið er í sinni þingsögu. En við hinir höfum þurft að taka það á okkur að axla þá ábyrgð og gera þau mistök sem gerð hafa verið á hverjum tíma og það held ég að hallist ósköp lítið á í þessu máli milli einstakra flokka. Ég held að það sé nú staðreynd málsins.
    Ég get tekið undir það sem hér var sagt áðan að það er í raun að koma fram í þjóðfélaginu annar misgengishópur varðandi húsnæðismál. Það er sá hópur sem hefur tekið húsbréfalán með til þess að gera háum vöxtum og þeim afarkostum að hafa þurft að taka á sig afföll upp í 15--17% ef ég man rétt, 23% dæmi eru til þegar verst lét. Og því miður horfir hluti þessa hóps fram á það núna að geta ekki staðið undir þessum skuldbindingum. Og ég held í raun að fólk hafi ekki verið upplýst nóg hvað afföllin þýddu. Afföllin þýddu bara það að þeir sem keyptu þessi bréf sættu sig ekki við neina 6% ávöxtun. Þeir vildu fá eitthvað miklu meira. Og ég tek undir það að það verður að skoða stöðu þessa hóps sérstaklega.
    Efh.- og viðskn. kallaði til sín fulltrúa viðskiptabankanna og sparisjóða núna í vikunni og ræddi við þá um stöðuna. Þeir fulltrúar sem þar mættu voru allir meðmæltir því að ráðist væri í það að lækka vextina. Það sem veldur mér hins vegar áhyggjum í þessu sambandi er það að enn þá eru skammtímaskuldbindingar í bankakerfinu á afar háum vöxtum. Ég kalla það afar háa vexti þegar það eru 12--13% vextir í nánast núllverðbólgu. Og það setti að mér svolítinn ugg þegar bankastjórarnir rökstuddu það að þetta væri nú ef eitthvað væri lægri vextir heldur en á skammtímaskuldbindingum til heimila og fyrirtækja í nágrannalöndum. Það kann að vera rétt, en þar á er sá stóri munur að þar er eingöngu um að ræða mjög lítinn hluta af fjármögnun í atvinnurekstri sem er tekinn með slíkum lánum. Þar er eiginfjárstaðan miklu sterkari en hér er. Þar er ekki uppi sú staða eins og hjá okkur að við getum séð dæmi þess að fyrirtæki eru með helming eða meira af sínu lánsfé á skammtímakröfu og ef þetta heldur áfram þá vænkast ekki hagur þessara fyrirtækja eða þeirra heimila sem eru að velta slíkum skuldbindingum á undan sér. Meðan svo er er ekki von til þess að bankarnir geti minnkað vaxtamun að nokkru ráði því að meðan þetta heldur áfram, þá halda gjaldþrotin áfram og bankarnir verða að taka fyrir þeim, verða, segi ég því að í mínum huga hefur í bankakerfinu verið gengið langt út yfir það sem er nokkuð réttlæti eða siðfræði á bak við varðandi það að taka vaxtamun af þeim sem enn geta staðið í skilum með sín lán til þess að borga afskriftir þeirra sem eru farnir úr viðskiptum vegna gjaldþrota. Þetta er hlutur sem aðilar annars staðar í þjóðfélaginu geta ekki

leyft sér. Þar sem eðlileg samkeppnisstaða ríkir, þá geta menn ekki hækkað sína álagningu til þess að mæta slíkum áföllum. Þar verða menn að mæta því með því að styrkja fyrirtækin með því að koma með nýtt eigin fé inn.
    Virðulegi forseti. Ég vona að það sé alveg ljóst að það er mín skoðun að það sé löngu tímabært að afnema lánskjaravísitöluna og ég bara minni á eitt í því sambandi til viðbótar. Það er hvað gerðist í sumar eftir gengisfellinguna. Þá gerist það að vegna þess að kaffi, sykur og aðrar erlendar nauðsynjavörur hækka í verði vegna þess að þær hækka í íslenskum krónum í innkaupum til landsins, þá hækkar allur vaxtafótur í landinu og það sér hver heilvita maður að þarna er náttúrlega um að ræða snarvitlaust orsakasamhengi. Ég geri það að mínum lokaorðum að sparifjáreigendur verði að fara að skilja það og sætta sig við það eins og launþegar gerðu árið 1990 að það leiðir ekki til annars en ófarnaðar að pína út meira fyrir hvort sem það er afrakstur vinnu eða afrakstur fjár heldur en okkar atvinnulíf og okkar þjóðfélag stendur undir á hverjum tíma.