Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:37:53 (1868)


[12:37]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að hv. þm. Framsfl., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, skuli gera þá játningu að menn úr núverandi og fyrrverandi stjórnarflokkum verði að axla þá ábyrgð að þeir hafi komið að þessum málum með einum eða öðrum hætti. Mér hefur stundum fundist vanta svolítið upp á það í umræðum hér að menn muni fortíð sína. Hún er yfirleitt gleymd þegar kemur að pólitískum umræðum.     Ég vil endilega hnykkja á þessu sem hann sagði um húsbréfahópinn, þ.e. þarna væri að koma upp nýr hópur af fólki sem yrði hugsanlega í verulegum erfiðleikum og það er bent á það að sumir stæðu núna andspænis því að geta ekki staðið í skilum. Þetta er auðvitað rétt. En svo er sá hópur líka dálítið stór, vil ég halda fram, sem stendur í skilum með húsbréfalánin sín með harmkvælum, með því að skerða lífskjör sín á öðrum sviðum og reynir að standa í skilum með húsnæðislán sín. Þessi hópur kemur kannski aldrei til kasta Húsnæðisstofnunar eða eins eða neins en hann gerir þetta með harmkvælum og það er þessi hópur sem verður líka að huga að, sem lendir kannski ekki beinlínis í vanskilum með lánin sín en á í verulegum erfiðleikum. Mig langar í þessu sambandi að tilfæra hér orð sem ég hlustaði á um daginn, sem sjálfstæðismaður, formaður Lánasjóðs ísl. námsmanna, sagði á fundi með námsmönnum uppi í háskóla þar sem ég var stödd. Hann sagði við námsmennina: Þið sem eruð að taka há námslán hérna núna og eigið að borga þau verðtryggð og með hertum endurgreiðslum og ætlið síðan að koma út á húsnæðismarkað og taka húsnæðislán, þið munið aldrei búa við mannsæmandi kjör, sagði hann við þetta fólk. Ég hefði betur viljað að einhver sjálfstæðisþingmaðurinn eða ráðherra menntamála hefði sagt þetta hér þegar verið var að setja námslánalögin, hefði sagt þetta þá. Þá þorðu þeir ekki að gera það. Nú gera þeir það. En þetta er auðvitað alveg rétt. Þannig er búið að búa að þessu fólki að það getur ekki búið við mannsæmandi kjör ef svona heldur fram sem horfir.