Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:40:08 (1869)


[12:40]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef aldrei skorast undan pólitískri ábyrgð. Það er að vísu dálítið flókið fyrir okkur stundum sem höfum verið ýmist í eða utan ríkisstjórnar að muna alveg hvenær hver gerningur var gerður þannig að kannski skolast það stundum til. Við höfum ekki til þess að gera þessa einföldu og pólitísku fortíð að skírskota til.
    En ég vil taka sterklega undir það sem hv. þm. sagði um þann hóp sem stendur í skilum og ver til þess nánast hverri einustu lausri krónu umfram það sem þarf til hinna brýnustu lífsnauðsynja. Ég vil leggja áherslu á einn þátt í sambandi og þessi hópur er að horfa fram á það næstu 25 árin því hann sér enga breytingu meðan hann er með húsbréfin á herðunum. En ég vil benda á það í þessu sambandi að ég held að það sé afar erfitt og slæmt fyrir efnahagslífið í landinu og viðgang og vöxt þess að þessi hópur hafi ekkert aflögu umfram eins og ég sagði áðan brýnustu þarfir því að það er þá ekkert fjármagn þar eftir til þess að örva framleiðslu og viðskipti og neyslu hér innan lands.