Lánskjör og ávöxtun sparifjár

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 12:53:15 (1874)


[12:53]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var lítil setning í ræðu hv. þm. Eggerts Haukdals hér áðan sem kannski fær mig til þess að rísa úr sæti. Hann mælti á þá leið að ég hefði verið ráðinn aðstoðarmaður hæstv. fyrrv. viðskrh. í bankamálum. Þetta er náttúrlega grátt grín að glettast svona. Auðvitað var mér bara falið hlutverk, það var þingflokkur minn sem tilnefndi mig í það bankaráð og var samstaða stjórnarflokkanna um að ég tæki það að mér. Þetta er svo sem ekkert viðkvæmt í mínum huga, en eins og hv. þm. hefur talað hér um þennan ágæta fyrrv. ráðherra, þá voru þetta ekki hlýleg orð.
    Ég tók auðvitað upp hanskann fyrir Jón Sigurðsson seðlabankastjóra og reyndi að vekja athygli á því að kannski er Seðlabankinn stjórntæki sem ríkisstjórnin verði að átta sig á og ég fer ekkert ofan af því að þessi fyrrv. viðskrh. vann mikið gagn í þeirri vaxtalækkun sem nú hefur náðst fram.
    Ég tel að það hafi ekki verið mistök að setja á lánskjaravísitölu í upphafi. Ég tel að hún hafi gengið sína leið og þegar menn hafa náð verðbólgunni niður þá þurfi hún að hverfa. En hinu vek ég athygli á, sem ég gerði hér í ræðu minni, mestu mistökin eru auðvitað frelsi vaxtanna 1985. Þeir hafa lamað atvinnulífið, þar hafa lífeyrissjóðirnir og stóreignamennirnir á peningum ráðið ferðinni. Mín skoðun á lækkun vaxta hefur alltaf verið mjög einföld. Ég hef sagt: Þessir stóru aðilar sem ráða kannski orðið 70--80% af öllu fjármagni á Íslandi verða að sætta sig við að vextir á sparifé lækki til þess að hægt sé að lækka útlánsvexti. Nú hefur þetta gerst. En helstefnan fólst í því að 6,5% vextir á spariskírteini voru hækkaðir upp í 8,3% af ríkisstjórninni á fyrstu dögum sem leiddi til 3--4% raunvaxtahækkunar á útlánum.