Fangelsi og fangavist

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 13:54:11 (1881)


[13:54]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir málflutning flm. þessara beggja mála, en leyfi mér þó að skjóta inn skoðunum mínum og inna um leið flm. eftir einu atriði.
    Varðandi síðara málið, 205. mál, um atvinnuleysistryggingar, þá vil ég spyrja flm. hvort hann hafi kynnt sér möguleika á því að atvinnuleysisbætur til slíkra manna geti orðið bundnar við lægri skilyrði en að minnsta kosti 12 mánaða gæsluvarðhaldsvist.
    Síðan vil ég setja fram þá skoðun mína að frelsissviptingu fylgir iðulega réttindasvipting einnig. Nýlegur dómur, sem birtur var fyrir örfáum klukkustundum, var í máli lögmanns sem brotið hafði lög og varðaði sektir. Sennilega var þyngsta refsingin missir réttinda um alllangan tíma. Án þess að segja nokkuð frekar um það þá vil ég benda á að í þessu samhengi getur orðið allflókið að finna hinar réttmætu atvinnuleysisbætur og hins vegar gæti orðið miklu þyngra en venjulega í öðrum tilvikum fyrir viðkomandi einstakling að leita sér að vinnu að þessari refsingu lokinni.
    Ég tek undir það sjónarmið að gæsluvarðhaldsvist eða refsivist hlýtur að teljast fullnaðaruppgjör við samfélagið, að öðrum kosti mundi dómstóll þess leggja á fleiri refsiatriði í dóm. Ég tel miklu skipta að að slíku loknu fái einstaklingar tækifæri til að leita sér að vinnu og hygg að þeir þurfi ekki aðeins þá þjónustu sem getið er um í fyrra málinu heldur einnig aðstoð við atvinnuleit, í rauninni mjög sértæka vinnumiðlun. Í þessu efni tel ég skipta miklu máli að við höfum í huga að árangur þessara stofnana okkar er því miður fyrst og fremst fólginn í því að vera refsivistarstofnanir en ekki betrunarstofnanir. Og ég segi, það er því miður, vegna þess að öll umræða, þó hún hafi ekki verið mjög skilvirk eða marktæk og þó hún hafi því miður oftast staðið aðeins þegar athygli þjóðarsálarinnar beinist að þessum málum eða fjölmiðlanna, sem ég tel raunar hvorugt til bóta málefninu, þá hefur umræðan samt sem áður snúist um að betrunarþátturinn verði aukinn en refsiþátturinn verði rýrður. Ég hygg að við verðum öll sammála um að það er sú breyting sem orðið hefur á viðhorfi nútímamanna til afplánunar refsivistar. Eða erum við virkilega enn að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við erum að beita þessum úrræðum í refsingarskyni einu. Ég er nokkuð viss um að við erum sammála um svarið; það er ekki svo.
    Í þessu samhengi spyr ég hv. flm. þess sem ég nefndi áðan. En ég tek undir málflutning hans í báðum þessum málum og vænti þess að við megum fara þessa leið í fleiri greinum og reynum að bæta þessar stofnanir sem við vitum raunar öll að eru ekki að öllu leyti færar um að gegna sínum verkefnum.