Vegagerð milli Borgarfjarðar eystri og Seyðisfjarðar

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 14:09:50 (1886)

[14:09]
     Flm. (Jónas Hallgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 256 um vegagerð milli Borgarfjarðar eystri og Seyðisfjarðar. Flm. auk mín er hv. 2. þm. Austurl., Jón Kristjánsson.
    Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna möguleika á gerð sumarvegar frá Borgarfirði eystri um Loðmundarfjörð til Seyðisfjarðar.``
    Í greinargerð með tillögunni koma fram ýmsar áherslur sem flm. vilja sérstaklega benda á. Vegur með ströndinni milli Seyðisfjarðar um Loðmundarfjörð til Borgarfjarðar eystri hefur lengi verið til umræðu milli manna austur þar. Forn samgönguleið er um svokallaða Hjálmadalsheiði eða Hjálmu eins og hún er kölluð manna á meðal, milli Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar, göngu- og hestaslóð í um 600 m hæð.

Sú leið þykir þó ekki vænleg sem framtíðarleið fyrir bifreiðaakstur.
    Umferð á sjó hefur alltaf verið nokkur til Loðmundarfjarðar en erfið vegna slæmra lendingarskilyrða þó þar hafi verið reynt að bæta úr á undanförnum árum.
    Þegar síldarævintýrinu síðasta lauk 1965--1970 var mikið rætt um gerð akfærs vegar milli Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystri og þá aðallega til að komast að biksteinsnámunni í fjallinu Skúmhetti í Loðmundarfirði með útflutning biksteins í huga. Voru gerðar ýmsar athuganir og þótti engin fyrirstaða vera á samgöngubótum á svæðinu ef hægt hefði verið að nýta afurðina, þ.e. biksteininn. Af þessu varð þó ekki vegna bágra markaðsaðstæðna en hver veit nema þessi umræða fari af stað aftur og það fyrr en varir.
    Eins og fram kemur í greinargerðinni eru möguleikar ferðaþjónustu á þessu svæði miklir og mundu aukast til muna ef þessar samgöngubætur kæmust á.
    Þó er rétt að hér komi fram að úrtölumenn finnast í þessu efni sem telja að Loðmundarfjörður eigi að varðveitast, helst eins og hann er, þannig að þangað verði alls ekki fært vélknúnum ökutækjum. Út af fyrir sig er þetta sjónarmið þó ekki séu tillögumenn sammála því.
    Seyðisfjörður hefur um síðasta 20 ára skeið verið annað aðalinnflutningshlið ferðafólks til landsins. Þangað koma á ári hverju á bilinu 6.000--8.000 manns og tvöföldun þeirrar tölu leiðir af sér að það fara um Seyðisfjörð um 16.000 manns og 5.000 bifreiðar þannig að það er fyrir mjög mikil umferð á svæðinu og mundi áreiðanlega þakksamlega þegið að komast á nýjar slóðir með það ferðafólk.
    Ítrekað hefur verið bent á af heimamönnum hve erfitt er að halda ferðafólkinu á austurströndinni vegna fábreytni í afþreyingu. Þessi nýja hringleið, Seyðisfjörður--Loðmundarfjörður--Borgarfjörður eystri--Egilsstaðir, mundi tvímælalaust stórauka möguleika ferðaþjónustu á svæðinu og verða til þess að treysta og festa þá viðkvæmu byggð sem nú er reynt að viðhalda á þessum slóðum.
    Virðulegur forseti. Eftir þessa umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. samgn. til umfjöllunar.