Úrbætur í málum nýbúa

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 14:21:17 (1888)


[14:21]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. 1. flm. fyrir að hreyfa þessu máli. Það hefur þegar verið rætt um þetta mál í hv. menntmn. og við höfum fengið ágætar upplýsingar um það þar nú þegar frá hv. 1. flm. um það hvað hér er mikið í húfi fyrir þá nýbúa sem um er að ræða. Ég tel hins vegar að orðalag í ályktuninni kunni að orka tvímælis en þetta hugtak er skýrt og hv. 1. flm. skýrði það fyrir okkur að þarna er talað um íslenskuna sem annað mál. Þá er vísað til þess að það eigi að kenna þessu fólki íslenskuna á þann veg að það sé að læra erlent tungumál, að íslenska fyrir því sé eins og erlent tungumál og það þurfi að útbúa kennsluefni með þeim hætti eins og við Íslendingar séum að læra erlenda tungu. Ég skil það þannig og hugmyndin er sem sagt sú að stuðla að því að koma á framfæri við þessa Íslendinga námsefni sem sé það einfalt að þeir geti tileinkað sér tungumálið betur en með því kennsluefni sem nú er fyrir hendi.
    Ég vil aðeins af því tilefni að hv. 1. flm. nefndi framtak menntmrn. sem er rétt og sanngjarnt tilgreina ræðu sem hæstv. menntmrh. flutti á haustþingi Kennarafélags Reykjavíkur 9. okt. sl. um nokkur stefnumið í skólamálum á Íslandi. Sagði hann m.a., með leyfi frú forseta:
    ,,Nú í haust fer fram tilraunastarf í þjónustu við nýbúabörn í nokkrum skólum Reykjavíkur. Settir hafa verið á fót móttökubekkir fyrir börn nýkomin til landsins auk þess sem gerðar eru tilraunir með samkennslu nemenda sem hafa verið nokkurn tíma á Íslandi. Markmiðið er að nýta sem best fagþekkingu kennara á nýju og óþekktu viðfangsefni og gefa nemendum kost á auknum stundafjölda í kennslu í íslensku sem annars tungumáls með því að kenna þeim í hópum. Miklar vonir eru bundnar við þetta tilraunastarf, en reynt hefur verið að nýta reynslu nágrannaþjóðanna og hefja starfið á því stigi sem þær þegar eru komnar á. Nágrannar okkar á Norðurlöndum búa að langri reynslu í þjónustu við erlend börn og höfum við leitað í smiðju þeirra um fyrirmyndir til að byggja upp þjónustu við nýbúabörn í íslenskum skólum.``
    Það kemur einnig fram að menntmrh. hefur ráðið Ingibjörgu Hafstað sem verkefnastjóra fyrir kennslu nýbúabarna í skólum og hún mun afla ítarlegra upplýsinga um stöðu þessara barna svo að skipuleggja megi kennslu þeirra á sem markvissastan hátt. Ég held því, frú forseti, að hér sé hreyft máli sem nú er þegar unnið að á vegum menntmrn. og mér finnst sjálfsagt að í meðförum menntmn. verði þeim sjónarmiðum komið á framfæri sem getið er um í þessari ályktun og nefndin fjalli um það í ljósi þess starfs sem þegar er unnið og þessi markmið komist rækilega til skila inn í það tilraunastarf sem unnið er á vegum menntmrn.