Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 15:27:29 (1896)


[15:27]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. 72 þús. tonn þorskígilda voru flutt á milli skipa á síðasta fiskveiðiári samkvæmt svari við fsp. eins hv. þm. Þetta svar barst á borð okkar þingmanna í gærdag. Þetta merkir að ótrúlega mikið af kvóta gekk kaupum og sölum í samfélaginu. Við erum því ekki að tala um neina smávægilega verslun með kvóta þegar hana ber á góma. Viðskiptin nema milljörðum að mati kunnugra á þessum tölum.
    Samkvæmt úrskurði Hæstaréttar ber að líta á þennan kvóta sem eign, annað er hártogun. Eign einkaaðila sem borga af honum skatta og skyldur.
    Dómur Hæstaréttar stendur og engin ástæða til að hafa fleiri orð um það. Það er hins vegar íhugunarvert þegar hæstv. dómsmrh. hafði þau ummæli í fjölmiðlum að hann væri ekki sammála úrskurði meiri hluta Hæstaréttar. Var þá framkvæmdarvaldið að senda hæstaréttardómurum skilaboð um að dómurinn hafi ekki verið því þóknanlegur? Við hvaða réttaröryggi byggjum við ef dómsvaldið tæki tillit til slíkra athugasemda og hefði tæki til að breyta dómum sínum framkvæmdarvaldinu til þægðar? Mér þykir því ánægjulegt að heyra í máli hæstv. ráðherra við þessa umræðu að hann er reiðubúinn til að hlíta dómnum án frekari alvarlegra yfirlýsinga.
    Þessi dómur hlýtur að neyða menn til að horfast í augu við þau lög sem þeir hafa samþykkt yfir sig. Horfast í augu við þá staðreynd að varla er hægt að taka mark á 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, greininni sem við kvennalistakonur höfum einatt bent á að væri gerð merkingarlaus með öðrum greinum laganna. Ég skil því ekki alveg hvað hæstv. sjútvrh. sér nýtt í því að rekja það lögfræðiálit sem gerir þessa grein í raun ómerka. Hvers vegna var hún þá höfð með yfir höfuð?
    Við kvennalistakonur bentum fyrir mörgum árum á að til er leið til að gera 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, sjálfa markmiðsgreinina, virka. Það er hægt að gera með því að taka upp byggðakvóta. Þannig væri hægt að taka kvótann úr höndum einkaaðila og gera hann að raunverulegri sameign sem ekki gengi kaupum og sölum á milli einkaaðila og endaði sem eignfærð séreign nokkurra stórra útgerðarfyrirtækja eins og nú stefnir hraðbyr í. Slík stefna þjónar ekki hagsmunum heildarinnar. Slík stefna er óréttlát.
    Við höfum nú að undanförnu séð hvert kvótabraskið er að leiða okkur og það er engin gæfuleið. Sjómenn eru búnir að fá sig fullsadda af því að vera neyddir til að taka þátt í kvótakaupum. Fáir geta aðhyllst leiguliðafiskirí, eða tonn á móti tonni. Atvinnulíf heilla byggðarlaga er í rúst vegna sölu kvóta burt af stöðum víðs vegar um landið. Í ofanálag er nú ljóst að jafnvel þeir sem helst hafa haldið dauðahaldi í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða og fullyrt að takmarkaðar auðlindir hafsins í kringum landið væru sameign þjóðarinnar hafa í besta falli fengið alvarlegan andbyr við skoðunum sínum, í versta falli verið hafðir að háði og spotti.
    Það er löngu orðið ljóst að enginn friður er um núgildandi lög um stjórn fiskveiða né heldur þær leiðir sem svonefnd tvíhöfða nefnd boðaði til breytinga á lögunum. Það eina sem allir virðast vilja halda í er að tryggja að fiskstofnarnir við landið verði raunveruleg sameign. Það er að segja í orði en ekki á

borði. Nú hafa verið tekin af öll tvímæli um að það er nánast útilokað samkvæmt núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Ég fæ ekki séð að hugmyndir þær sem hafa verið uppi um veiðileyfagjald eða aflagjald skili meira réttlæti heldur þvert á móti ítreki að kvótinn sé söluvara sem menn geti haft eignarhald á. Hins vegar hefur enn sem komið er verið litið fram hjá þeirri leið sem vænlegust er til árangurs, að skipta kvótanum á milli sveitarfélaganna í landinu miðað við veiðireynslu fyrri ára og endurskoða slíka skiptingu reglubundið til að tryggja fullt réttlæti. Þessi leið tryggir að kvóta sé ekki ráðstafað af einkaaðilum með einkahagsmuni sem þeir verða skiljanlega að gæta heldur af samfélagi fólksins sem byggir landið og á afkomu sína undir sjónum.
    Það er mikið talað um að færa þurfi verkefni til sveitarfélaga. Hvers vegna hika menn þá við að færa þetta augljósa verkefni til byggða landsins? Gætir þess tvískinnungs enn að menn trúi frekar á valddreifingu í orði en á borði?
    Ég bendi á að allt vol og víl um erfiða framkvæmd byggðakvóta var í raun gert á mjög merkilegan hátt marklaust er Bíldudal var úthlutað aflaheimildum nú nýverið --- staðnum sem að vísu þurfti að útvega sér skip til að fiska en það er vonandi minni háttar mál.
    Ég vona að við berum gæfu til að líta á niðurstöður Hæstaréttar nú sem alvarlega ábendingu um það á hvaða leið við erum og hvernig við erum að festa okkur sífellt fastar í því neti sem kvótabrask er. Vissulega er hér um mikla hagsmuni að ræða og ég neita því ekki að þau öfl sem gæta að sínu eru mjög sterk. En hvar eru talsmenn sveitarfélaganna í þessari umræðu? Af hverju gera þeir ekki nú strax skilyrðislausa kröfu um að hafa forræði yfir þessari auðlind okkar allra í stað þess að standa í eilífum útgjöldum, ,,reddingum`` og ábyrgðum fyrir einkaaðila í hverju sjávarplássinu á fætur öðru, oft án þess að hafa nokkurn raunverulegan möguleika á því að stýra för eða jafnvel að hafa yfirsýn yfir gang mála? Þetta er oftar en ekki gert í því skyni að halda atvinnu á staðnum en þegar upp er staðið hafa aðeins fá sveitarfélög burði til að iðka slíkan leik. Það er heldur ekki skynsamleg leið að fara nauðvörn í þeirri furðulegu stöðu sem við erum núna í á meðan sameigninni er ráðstafað af útvöldum einkaaðilum.
    Titringur sá sem verið hefur vegna hugmynda um að kvóta megi binda á fiskvinnsluhús ber vitni um að hér er verið að takast á um mikla hagsmuni. Oft og tíðum eru þó fiskvinnsla og útgerð á sömu hendi og síkt fyrirkomulag mundi alls ekki tryggja réttlátari skiptingu kvóta milli byggðarlaga né koma í veg fyrir brask.
    Hlutverk dómstóla er að túlka gildandi lög. Það er ekki við þá að sakast þótt þeir neyði menn til að horfast í augu við þau lög sem þeir hafa sett og fráleitt að skella skuldinni á dóminn líki mönnum ekki það sem þeir sjá.